Fótbolti

Ótrúlegur 6-0 sigur Sundsvall í toppslag sænsku B-deildarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason skoraði eitt mark fyrir GIF Sundsvall sem skellti sér á topp sænsku B-deildarinnar í kvöld með 6-0 sigri á Ängelholm í Íslendingaslag.

Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn en Sundsvall er nú í efsta sæti deildarinnar með 52 stig. Ängelholm er í þriðja sætinu með 49 stig, tveimur á eftir Åtvidaberg.

Ari Freyr lék allan leikinn í liði Sundsvall sem og Heiðar Geir Júlíusson í liði Ängelholm. Báðir lékur þeir á miðjunni í sínum liðum.

Leikurinn var sá fyrsti í 27. umferð deildarinnar sem er fjórða síðasta umferð tímabilsins. Tvö efstu liðin komast beint upp í sænsku úrvalsdeildina en liðið í þriðja sæti þarf að fara í umspil.

Efstu þrjú liðin hafa nokkra forystu á önnur lið í deildinni og er því útlit fyrir spennandi toppbaráttu í lokaumferðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×