Handbolti

Öruggur sigur AG á Pick Szeged

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða AG
AG Kaupmannahöfn vann í dag öruggan sigur á ungverska liðinu Pick Szeged á heimvelli, 36-24, í Meistaradeild Evrópu. AG hefur því unnið báða fyrstu leiki sína í keppninni og þann fyrsta á heimavelli. Staðan í hálfleik var 18-11, AG í vil.

AG hafði eins og gefur að skilja mikla yfirburði í leiknum en þrír Íslendingar komu við sögu hjá AG. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk í leiknum, Snorri Steinn Guðjónsson  fjögur og Arnór Atlason þrjú. Ólafur Stefánsson er einnig á mála hjá AG en er nú frá vegna meiðsla. Danski landsliðsmaðurinn Mikkel Hansen fór mikinn og skoraði tíu mörk fyrir AG.

Síðar í dag mætast Kiel og Montpellier í sama riðli en það er viðbúið að þessi tvö lið munu ásamt AG berjast um efstu sæti riðilsins.

AG vann í fyrstu umferðinni sex marka sigur á Partizan Beograd á útivelli og skoraði Guðjón Valur tólf mörk í þeim leik.

Þess má svo geta að Kjartan Steinbach var eftirlitsmaður EHF í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×