Kristján Örn Sigurðsson skoraði síðara mark sinna manna í Hönefoss sem vann í kvöld 2-1 sigur á Asker á útivelli í norsku B-deildinni.
Kristján Örn kom sínum mönnum í 2-0 forystu á 28. mínútu en hann spilaði allan leikinn í vörn liðsins, rétt eins og Arnór Sveinn Aðalsteinsson.
Atli Heimisson var í byrjunarliði Asker en var tekinn af velli á 71. mínútu. Liðsfélagi hans brenndi af vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiksins en heimamenn náðu þó að klóra í bakkann með marki um tíu mínútum fyrir leikslok.
Hönefoss fékk þar með dýrmæt stig í toppbaráttu deildarinnar og kom sér upp í annað sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru til loka. Tvö efstu liðin komast upp í norsku úrvalsdeildina en Sandnes Ulf, lið Steinþórs Freys Þorsteinssonar og Ingimundar Níels Óskarssonar, er á toppnum með 53 stig og tveggja stiga forystu á Hönefoss.
HamKam er með 51 stig, rétt eins og Hönefoss, og Bodö/Glimt er í fjórða sætinu með 49 stig.
