Fótbolti

Enginn Englendingur hefur skorað meira í Meistaradeildinni en Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar í gær.
Wayne Rooney fagnar í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wayne Rooney skoraði bæði mörk Manchester United í 2-0 sigri á rúmenska liðinu Otelul Galati í Meistaradeildinni í gærkvöldi og hefur þar með skorað 26 mörk á ferlinum í Meistaradeildinni.

Rooney var að skora sín fyrstu Meistaradeildarmörk á tímabilinu en þau komu bæði úr vítaspyrnum sem hann fékk sjálfur. Í fyrra vítinu stoppaði varnarmaður Otelul Galati sendingu hans með hendi og í seinna vítinu var Rooney felldur.

Rooney bætti með þessu met Paul Scholes en þeir voru búnir að vera jafnir í efsta sætinu frá því á síðustu leiktíð. Næstu menn eru síðan Frank Lampard hjá Chelsea og Steven Gerrard hjá Liverpool.

Það eru liðin sjö ár síðan að Rooney opnaði markareikning sinn í Meistaradeildinni með eftirminnilegum hætti. Rooney, þá aðeins 18 ára, skoraði þá þrennu í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni þegar United vann 6-2 sigur á Fenerbahce á Old Trafford.

Besta tímabil Rooney í Meistaradeildinni var veturinn 2009-10 þegar hann skoraði 5 mörk í 7 leikjum. Hann á talsvert í land með að ná Raul sem hefur skorað flest mörk í sögu Meistaradeildarinnar eða 71. Ruud van Nistelrooy er síðan í öðru sæti með 56 mörk.

Flest mörk enskra leikmanna í Meistaradeildinni:

1. Wayne Rooney 26

2. Paul Scholes 24

3. Frank Lampard 20

4. Steven Gerrard 19




Fleiri fréttir

Sjá meira


×