Handbolti

AG tapaði óvænt fyrir Álaborg í Danmörku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason er fyrirliði AGK.
Arnór Atlason er fyrirliði AGK. Mynd/Heimasíða AGK.
AG tapaði aðeins sínum öðrum deildarleik frá stofnun félagsins í dag er liðið mátti þola eins marks tap gegn Álaborg á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í dag, 25-24.

Arnór Atlason skoraði fjögur mörk fyrir AG í dag og Snorri Steinn Guðjónsson þrjú. Guðjón Valur Sigurðsson var ekki á meðal markaskorara.

Álaborg náði undirtökunum snemma í leiknum og hafði þriggja marka forystu í hálfleik, 13-10. Eftir fimm mínútur í seinni hálfleik var staðan orðin 17-12, Álaborg í vil, og útlitið dökkt fyrir heimamenn.

Steinar Ege, markvörður AG, og Arnór Atlason tóku þá til sinna mála. Ege varði vel og Arnór skoraði grimmt. AG náði að minnka muninn í 18-17 og var staðan jöfn, 20-20, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

En gestirnir reyndust sterkari á lokasprettinum og innbyrtu góðan sigur.

AG er enn í efsta sæti deildarinnar með sautján stig, einu á undan Kolding sem gerði þó jafntefli við Team Tvis Holstebro, 30-30. Álaborg er í fimmta sætinu með níu stig.

Það var einnig spilað í Svíþjóð í dag en þar vann Guif góðan útisigur á Aranäs, 33-25. Haukur Andrésson skoraði ekki fyrir Guif að þessu sinni en bróðir hans, Kristján, er þjálfari liðsins. Guif komst á topp deildarinnar með sigrinum en liðið er með fimmtán stig, einu meira en Ystad sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×