Handbolti

Spánverjar unnu alla sína leiki á Supercup

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Rocas og Cristian Ugalde fagna sigri.
Albert Rocas og Cristian Ugalde fagna sigri. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Spænska handboltalandsliðið tryggði sér sigur á Supercup í Þýskalandi um helgina með því að vinna alla sína leiki á þessu sterka æfingamóti. Spánverjar unnu Svía, Dani og Þjóðverja.

Spánverjar voru búnir að tryggja sér sigurinn á mótinu fyrir lokaleikinn þar sem þeir unnu 27-23 sigur á heimamönnum í Þýskalandi. Markaskorið dreifðist á menn en tíu leikmenn spænska liðsins skoruðu á bilinu tvö til þrjú mörk og enginn náði að skora fjögur mörk.

Svíar urðu í öðru sæti á mótinu en þeir unnu meðal annars sinn fyrsta sigur á Dönum í fimm ár. Svíar unnu Dani 26-23 í lokaumferðinni í gær. Fredrik Petersen skoraði sex mörk fyrir Svía í leiknum og Mattias Andersson var frábær í markinu.

Danir urðu í þriðja sæti á mótinu eftir tap í síðustu tveimur leikjum sínum en Þjóðverjar ráku lestina eftir að hafa tapað þremur fyrstu leikjum sínum undir stjórn Martin Heuberger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×