Fótbolti

Rommedahl nálgast óðum metið hans Schmeichel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Rommedahl.
Dennis Rommedahl. Mynd/Nordic Photos/Getty
Dennis Rommedahl lék sinn 113. landsleik fyrir Dani í sigrinum á Svíum í vináttulandsleiknum á Parken á föstudagskvöldið og er núna orðin sá útileikmaður sem hefur spilað flesta leiki fyrir danska A-landsliðið.

„Þetta skiptir mig ekki svo miklu máli. Það var mikill heiður að ná hundraðasta leiknum og ég var mjög stoltur með þau tímamót. Nú er þetta bara tala," sagði Dennis Rommedahl.

„Það skiptir ekki öllu hvort maður sé númer tvö, þrjú eða fjögur á listanum en það mun skipta máli að komast í efsta sætið," sagði Rommedahl en hann vantar nú 16 leiki til að jafna met markvarðarins Peter Schmeichel sem lék 129 landsleiki á sínum tíma.

„Ef ég held áfram til HM 2014 þá verða margir leikir í boði. Þá erum við samt að plana tvö og hálft ár fram í tímann en ég lifi alltaf í núinu," sagði Dennis Rommedahl sem er orðinn 33 ára gamall og lék sinn fyrsta landsleik árið 2000.

„Það væri gaman að ná metinu af Peter en ég er stoltur af hverjum einasta landsleik sem ég spila. Það eru nokkrir leikir sem eru samt stærri en hinir. Sá hundraðasti var það og leikur númer 130 gæti verið það einnig," sagði Dennis Rommedahl sem hefur skorað 21 mark í þessum 113 landsleikjum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×