Ólafur Stefánsson segir í samtali við Kanalsport í Danmörku ólíklegt að hann muni spila með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu nú í janúar.
Ólafur hefur verið frá vegna hnémeiðsla síðan hann gekkst undir aðgerð í júní síðastliðnum en spilaði sinn fyrsta leik með AG í Danmörku á dögunum. Hann segist enn eiga langt í land með að ná fyrri styrk og horfir til þess tíma þegar hlé verður gert á deildakeppninni í Danmörku á meðan Evrópumeistaramótið fer fram.
„Ég hef janúarmánuð til að koma mér í betra form þar sem ég tel að ég muni ekki spila með landsliðinu [á EM í Serbíu]," sagði Ólafur í viðtalinu sem sjá má hér.
„Það væri ekki virðingarvert gagnvart mínu félagsliði [að spila á EM]. Ég á enn eftir að ræða við landsliðsþjálfarann en ég tel þetta skynsamlegustu leiðina. Þá hef ég þennan tíma til að koma mér í toppform fyrir fjóra erfiðustu mánuði tímabilsins."
Það yrði mikið áfall fyrir íslenska landsliðið að njóta ekki krafta Ólafs Stefánssonar í Serbíu en hvorki náðist í hann né Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara, nú síðdegis.

