Fótbolti

Mancini: Við áttum ekki skilið að tapa í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Napoli-menn fagna öðru marka sinna í kvöld.
Napoli-menn fagna öðru marka sinna í kvöld. Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, sá sína menn tapa 2-1 á móti Napoli í Meistaradeildinni í kvöld og gera með því nánast út um möguleika sína á því að komast áfram í sextán liða úrslit keppninnar. Napoli er nú með stigi meira en enska liðið og nægir sigur á botnliði Villarreal í lokaumferðinni til þess að komast áfram á kostnað Mancini og félaga.

„Við áttum ekki skilið að tapa þessum leik í kvöld en við fengum á okkur tvö heimskuleg mörk," sagði Roberto Mancini. Edison Cavani sýndi snilli sína og skoraði bæði mörk Napoli-liðsins í leiknum.

„Við vissum vel að Cavani yrði á nærstönginni í fyrra markinu og svo dekkuðum við hann ekki í seinna markinu hans," sagði Mancini.

„Eftir að við jöfnuðum leikinn þá fengum við tvö færi til að komast yfir og það var því skrýtið að lenda svo aftur undir," sagði Mancini en hvernig metur hann möguleikana í lokaumferðinni?

„Þetta er Meistaradeildin og þar er ekki hægt að útiloka neitt," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×