Gunnar Heiðar Þorvaldsson knattspyrnumaður úr Vestmannaeyjum hefur komist að samkomulagi við danska liðið Esbjerg um starfslokasamning. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins. Gunnar hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Esbjerg þar sem hann lék 26 leiki og skoraði 4 mörk.
Gunnar var á reynslu hjá skoska félaginu Hibernian á dögunum en hann fékk ekki samning hjá félaginu. Hann var hjá norska liðinu Fredrikstad sem lánsmaður á síðustu leiktíð þar sem hann lék 7 leiki og skoraði 3 mörk. Þar á undan var hann hjá enska 1. deildarliðinu Reading í stuttan tíma.
Gunnar, sem er 28 ára gamall, var markakóngur sænsku úrvalsdeildarinnar 2006 þegar hann var seldur til þýska liðsins Hannover 96. Þaðan var hann lánaður til Vålerenga í Noregi þar sem hann lék 16 leiki 2007-2008.
Frá árinu 2005 hefur Gunnar leikið 22 A-landsleiki og skorað 5 mörk.