Lífið

Verslanakeðjan Lindex skoðar Ísland

Með Ísland í sigtinu Verslanakeðjan Lindex staðfestir áhuga á Íslandi og hefur meðal annars sett sig í samband við Smáralind.
Með Ísland í sigtinu Verslanakeðjan Lindex staðfestir áhuga á Íslandi og hefur meðal annars sett sig í samband við Smáralind.
„Við erum stöðugt að þreifa fyrir okkur á nýjum alþjóðlegum mörkuðum. Ísland er á lista með öðrum löndum sem við erum að skoða náið en við getum ekki gefið nein ákveðin svör í augnablikinu,“ segir Kaisa Lyckdal, fjölmiðlafulltrúi verslanakeðjunnar Lindex.

Þeir sem hafa eytt einhverjum tíma í Skandinavíu ættu að kannast við Lindex en hún orðin einn helsti keppinautur verslunarrisans Hennes& Mauritz. Lindex einbeitir sér að kvenna-og barnafatnaði ásamt því að vera með stóra nærfata- og fylgihlutadeild og er nú með yfir 100 búðir víðs vegar um Evrópu. Hún er hluti af finnsku Stockmann-samsteypunni en á rætur að rekja til Svíþjóðar þar sem Lindex nýtur mikilla vinsælda.

„Ég get staðfest það að Lindex er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa verið í sambandi við okkur og sýnt áhuga en það þarf ekki að þýða neitt og við fáum fjöldann allan af fyrirspurnum að utan sem ná svo ekkert lengra,“ segir Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, en hann segist fagna því ef verslanakeðjan ákveði að opna búð á Íslandi.

„Við höfum fundið fyrir því að erlendir aðilar hafa haldið að sér höndum undanfarin ár vegna óvissunnar en núna er vonandi eitthvað að glæðast í þeim efnum.“

Lindex hefur verið að sækja í sig veðrið á síðustu árum, til dæmis með tískulínunni Fashion Report. Í vor frumsýnir fyrirtækið svo samstarf sitt við stjörnustílistann Rachel Zoe og er þeirrar línu beðið með eftirvæntingu. Það er því víst að Lindex yrði kærkomin viðbót í verslunarflóru landsins í framtíðinni.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×