Lífið

Góð helgi framundan í kvikmyndahúsum

Stórskotalið Marion Cotillard og Matt Damon leika aðalhlutverkin í kvikmynd Stevens Soderbergh, Contagion, sem frumsýnd verður um helgina.
nordicphotos/Getty
Stórskotalið Marion Cotillard og Matt Damon leika aðalhlutverkin í kvikmynd Stevens Soderbergh, Contagion, sem frumsýnd verður um helgina. nordicphotos/Getty
Bíónörd ættu að eiga góða helgi fram undan því nýjasta kvikmynd Stevens Soderbergh, Contagion, verður frumsýnd í Sambíóunum um helgina. Soderbergh hafa verið mislagðar hendur að undanförnu en miðað við leikhóp myndarinnar ætti fátt að geta klikkað; Jude Law, Matt Damon, Kate Winslet, Laurence Fishburne og Marion Cotillard svo fáeinir séu nefndir.

Myndin tekst reyndar á við kunnuglegt stef í kvikmyndasögunni, segir frá því þegar lífshættulegur vírus herjar á jarðarbúa og lamar allt samfélagið. Myndin fær 7,3 á imdb. com og 84 prósent gagnrýnenda eru ánægðir með hana samkvæmt rottentomatoes.com.

Eins og kemur fram hér annars staðar á síðunni er íslenska kvikmyndin Hrafnar, sóleyjar og myrra frumsýnd um helgina og hið sama má segja um Eldfjall, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar. Myndin er framlag Íslands í forval Óskarsverðlaunanna og hefur hlotið nánast einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda á kvikmyndahátíðum um allan heim. Með aðalhlutverkin í myndinni fara þau Margrét Helga Jóhannesdóttir og Theódór Júlíusson. Ítarlega verður rætt við Rúnar í helgarblaði Fréttablaðsins.

Loks fá börnin eitthvað fyrir sinn snúð því kvikmyndin Rauðhetta 2: Rauða gegn hinu illa er komin í sýningar. Rauðhetta heldur áfram að rannsaka dularfulla glæpi í ævintýraskóginum og að þessu sinni reynir hún að finna út úr dularfullu hvarfi Hans og Grétu. Myndin er sýnd með íslensku og ensku tali. Birgitta Haukdal talar fyrir Rauðhettu í íslensku útgáfunni. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×