Fótbolti

Salan á Veigari á borð lögreglu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar lék lengi með Stabæk við góðan orðstír en sala hans hjá félaginu er afar umdeild.mynd/scanpix
Veigar lék lengi með Stabæk við góðan orðstír en sala hans hjá félaginu er afar umdeild.mynd/scanpix
Sagan endalausa um vistaskipti Veigars Páls Gunnarssonar frá Stabæk til Vålerenga í norska fótboltanum ætlar engan endi að taka. Félögin þurfa að greiða háa sekt og þrír háttsettir aðilar fá ekki að koma nálægt fótbolta í 12-18 mánuði – og nú hefur norska lögreglan áhuga á að rannsaka málið.

„Við lítum á þetta sem brot á norskum lögum og ef málinu hefur verið rétt lýst í fjölmiðlum eigum við von á tilkynningu frá norska knattspyrnusambandinu,“ sagði fulltrúi lögreglunnar við norska fjölmiðla.

Stabæk og Vålerenga eru grunuð um að hafa sett á svið leikþátt sem átti að koma í veg fyrir að Stabæk þyrfti að greiða allt að 50 milljónir kr. af söluverðinu til Nancy í Frakklandi. Veigar var seldur á 20 milljónir kr. og með í kaupunum fylgdi 15 ára unglingur sem metinn var á 80 milljónir kr. Nancy fékk því aðeins 10 milljónir kr. í sinn hlut. Stjarnan og KR, sem Veigar lék með hér á landi, voru einnig hlunnfarin í þessu máli, en þau eiga rétt á hlut af söluverði hans.

Sjálfur segir Veigar, sem er saklaus aðili að málinu, að hann kæri sig ekki um þessa byrði. „Ég vil eiginlega ekki segja meira um þetta mál. Þetta hefur verið aukabyrði á mér sem ég þarf ekki á að halda. Ég mun ekki tjá mig meira um þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×