Guðlaugur Arnarsson, Öxlin, var frábær í liði Akureyrar sem vann Val í N1-deild karla í kvöld. Hann varði ófá skot í vörninni og batt hana saman.
Honum tókst þó ekki að skora en jafnan er haldin hátíð þegar kappinn læðir inn marki.
"Við vorum fyrst eins og beljurnar á vorin en fríið kom svo í ljós í seinni hálfleik," sagði Guðlaugur við Vísi.
"Við mættum hrokafullir inn í seinni hálfleikinn, eins asnalegt og það er, og misstum þetta niður. Það vantar kannski pínu leikæfingu, við spiluðum síðast fyrir mánuði í tveimur æfingaleikjum. En þetta á ekki að gerast."
Guðlaugur varði fjölda skota í leiknum, líklega jafn mörg í þeim fyrri og Sveinbjörn Pétursson markmaður.
"Ég er allir úti í boltaförum, úti um allt. En það er bara gott," sagði Guðlaugur.
"Valsmenn börðust vel í seinni hálfleik. Bubbi varði vel hjá þeim en við völdum ekki alltaf rétta kosti í sókninni," sagði Guðlaugur og líklega má rekja það til þess hversu lítið hann fékk að spreyta sig þar.
"Oddur hefur líka verið uppi í stúku í allan janúar, eitthvað að slappa af," sagði Gunnlaugur og hló við en Oddur var með landsliðinu á HM í Svíþjóð. "Við sýndum að við getum spilað vel en líka að við eigum fullt inni," sagði Húsavíkurtröllið.
