Norska sjónvarpsstöðin TV2 greindi frá því í dag að landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason sé mögulega á leið til Brann. Umboðsmaður hans vildi ekkert útiloka.
Samningur Birkis við Viking í Stafangri rann út í sumar og hefur hann verið að leita sér að félagi síðan þá. Umboðsmaður hans, Jim Solbakken, segir að Birkir hafi fengið tilboð frá mörgum félögum í sex Evrópulöndum og að stefnan sé tekin á að spila utan Noregs.
„Það eru mörg norsk félög sem hafa boðið Birki samning," sagði hann. „En við göngum út frá því að hann spili í Evrópu og hef ég verið að vinna að því. En í fótbolta er aldrei hægt að útiloka neitt," bætti Solbakken við.
