Handbolti

Sesum fékk pílu í augað - gæti misst sjónina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sesum á flugi gegn Makedónum á EM.
Sesum á flugi gegn Makedónum á EM. Nordic Photos / Getty Images
Handknattleiksmaðurinn Zarko Sesum fékk pílu í augað þegar hann gekk af velli að loknum sigri Serba á Króötum í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik í gær. Talið er líklegt að hann missi sjón á auganu. AFP-fréttastofan greinir frá þessu.

„Einhver í stúkunni ætlaði að henda pílu í Ivano Balic en hún fór í Zarko Sesum. Hann er á spítala. Við óttumst að hann muni missa sjón á auganu," sagði fulltrúi króatíska landsliðsins við AFP-fréttastofuna.

„Andrúmsloftið og söngvarnir voru til skammar. Það var sungið um morð og þess háttar. Það er sorglegt en við áttum svo sem von á þessu," bætti hann við.

Serbarnir hafa aðra sögu að segja

Lýsing fulltrúa serbneska landsliðsins á atburðunum er önnur en Króatanna. Á vef Aftenposten kemur fram að ekki hafi verið um pílu að ræða heldur flösku eða mynt. Þá virðast þeir ekki hafa áhyggjur af því að Sesum missi sjónina.

Serbarnir segja að aðskotahluturinn, hver svo sem hann var, hafi verið ætlaður þjálfara Króatanna, Slavko Goluza. Þá vonast þeir til að Sesum geti spilað úrslitaleikinn gegn Dönum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×