Handbolti

Alexander meiddur á öxl | Tímabilið mögulega búið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander í leik með Íslandi á EM í Serbíu.
Alexander í leik með Íslandi á EM í Serbíu. Mynd/Vilhelm
Óttast er að Alexander Petersson hafi leikið sinn síðasta leik á tímabilinu vegna axlarmeiðsla sem hann varð fyrir í leik með íslenska landsliðinu á EM í handbolta.

Þetta kemur fram í þýskum fjölmiðlum í dag en Alexander er á mála hjá Füchse Berlin, liði Dags Sigurðssonar. Hann sagðist fyrr í dag efins um að Alexander myndi geta spilað með í næstu leikjum.

Alexander hefur verið að glíma við eymsli í öxl undanfarið ár og sagði hann í viðtali við Fréttablaðið fyrir EM að það hefði byrjað á HM í Svíþjóð í fyrra. En meiðslin munu hafa orðið mun verri eftir leik Íslands og Slóveníu á EM í Serbíu og gat Alexander ekkert spilað með Íslandi í allri milliriðlakeppninni.

„Öxlin hefur ekki verið nógu góð og ég er enn að drepast eftir HM í fyrra. Ég vona að þetta muni ekki há mér á mótinu en það er ómögulegt að segja eins og er. Þetta verður bara að koma í ljós," sagði hann í viðtalinu sem má lesa hér fyrir neðan.

Nánari greining á meiðslunum liggur ekki fyrir en framkvæmdarstjóri Füchse Berlin, Bob Hanning, var ekki bjartsýnn. „Í verst falli getur það orðið niðurstaðan að tímabilið sé búið hjá honum," sagði hann við þýska fjölmiðla.

Verði það raunin mun hann ekki spila aftur með Füchse Berlin þar sem hann mun ganga til liðs við Rhein-Neckar Löwen í sumar. Engu að síður er þetta mikið áfall fyrir Berlínarliðið sem hefur komið á óvart og situr nú í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir

Alexander: Ólafur er enn fyrirmyndin mín

Alexander Petersson heldur nú í sitt fyrsta stórmót í handbolta án Ólafs Stefánssonar. Hann verður því aðalskytta liðsins hægra megin þrátt fyrir að glíma við meiðsli í öxl sem hafa hrjáð hann undanfarið ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×