Handbolti

Igropoulo leysir af Alexander hjá Füchse Berlin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin, hefur fengið öflugan leikmann til að leysa Alexander Petersson af hólmi þegar sá síðarnefndi heldur til Rhein-Neckar Löwen í sumar. Hann hefur gengið frá samningum við rússnesku skyttuna Konstantin Igropoulo, leikmann Barcelona.

Igropoulo hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið en hann er 26 ára gamall og á að baki 95 leiki með rússneska landsliðinu.

Igropoulo á ættir að rekja til Grikklands en er fæddur í Síberíu. Hann gekk til liðs við Barcelona árið 2009 eftir að hafa leikið með Chekovskie Medvedi í heimlandinu.

„Hann var efstur á óskalistnum," sagði framkvæmdarstjórinn Bob Hanning um komu Igropoulo. „Með honum fáum við fleiri valkosti í okkar leik, sérstaklega í sókninni."

Füchse Berlin samdi í fyrra við leikstjórandann Iker Romero sem einnig kom frá Barcelona. „Sú staðreynd að við höfum nú fengið tvo leikmenn frá Barcelona sýnir að við höfum fest okkur í sessi í fremstu röð í evrópskum handbolta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×