Fótbolti

Basel skellti Bayern í Sviss

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Valentin Stocker tryggði litla liðinu frá Sviss, FC Basel, góðan 1-0 sigur á þýska stórliðinu Bayern München í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Stocker skoraði markið með föstu skoti eftir laglega sendingu Jacues Zoua en báðir komu inn á sem varamenn í leiknum.

Fyrri hálfleikur hafði verið afar fjörlegur en hvorugu liði tókst þó að skora. Leikmenn Basel skutu tvívegis í stöng en þeir þýsku fengu einnig sín færi. Markverðir beggja liða, Yann Sommer og Manuel Neuer, voru vel á verði og spiluðu vel.

Úrslitin sannarlega óvænt en Bæjarar eiga síðari leikinn á heimavelli og þurfa nú sigur til að komast áfram í fjórðungsúrslit keppninnar.

Basel heldur áfram að koma á óvart í Meistaradeildinni en liðið hirti fjögur stig af Manchester United í riðlakeppninni og sá til þess að United komst ekki áfram upp úr riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×