Handbolti

Ungverjar unnu Makedóníumenn - Svíar unnu sinn leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Fyrsta degi af þremur er lokið í riðli Svía í forkeppni Ólympíuleikanna í London og eru Ungverjar og Svíar í efstu sætunum eftir leiki dagsins. Ungverjaland vann 29-26 sigur á Makedóníu en Svíar unnu 25-20 sigur á Brasilíu í hinum leiknum.

Það má búast við að Ungverjar og Makedóníumenn berjist við Svía um sætin tvö sem eru í boði á leikina í London úr þessum riðli og er sigur Ungverja því gríðarlega mikilvægur.

Makedóníumenn voru spútniklið EM í Serbíu en þeir byrjuðum mjög vel í dag og komust meðal annars í 10-7. Ungverjar unnu hinsvegar síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiksins 9-3 og voru 15-13 yfir í hálfleik.

Ungverska liðið var með frumkvæðið það sem eftir var leiks en Makedóníumenn tókst að minnka muninn í eitt mark, 23-22, þegar átta mínútur voru eftir. Ungverjar voru sterkari og tryggðu sér sigurinn.

Gabor Csaszar og Carlos Perez skoruðu báðir 6 mörk fyrir Ungverjaland en Kiril Lazarov var með 7 mörk fyrir Makedóníu.

Svíar unnu Brasilíumenn 25-20 eftir að hafa verið 12-10 yfir í hálfleik. Jonas Larholm var markahæstur með fimm mörk. Svíar mæta Makedóníu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×