Gunnar Hreiðar Þorvaldsson tryggði Norrköping 2-2 jafntefli á móti Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld þegar hann skoraði jöfnunarmarkið mínútu fyrir leikslok. Skúli Jón Friðgeirsson og félagar í Elfsborg byrja tímabilið vel en Alfreð Finnbogason og félagar þurftu að sætta sig við jafntefli á heimavelli.
Sundsvall kom tvisvar yfir í Íslendingaslagnum á móti Norrköping þar af í seinna skiptið á 88. mínútu. Gunnar Hreiðar bjargaði sínum mönnum stig mínútu síðar og hefur nú skorað tvö mörk í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins. Ari Freyr Skúlason spilaði allan leikinn með Sundsvall.
Skúli Jón Friðgeirsson kom inn á sem varamaður í blálokin þegar Elfsborg vann 2-1 útisigur á Gefle en sigurinn skilaði liðinu upp í annað sæti. Elfsborg hefur fengið 9 stig eins og Åtvidaberg en er með lakari markatölu.
Alfreð Finnbogason spilaði allan leikinn þegar Helsingborg gerði 1-1 jafntefli við GAIS á heimavelli.
