Fótbolti

Veigar Páll búinn að missa fimm kíló | Var ekki í góðu formi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson á landsliðsæfingu.
Veigar Páll Gunnarsson á landsliðsæfingu. Mynd/Stefán
„Það er erfitt að spila vel þegar maður er ekki í nógu góðu formi," segir landsliðsmaðurinn Veigar Páll Gunnarsson sem hefur spilað aðeins einn hálfleik með Vålerenga á tímabilinu.

Veigar Páll var í byrjunarliði Vålerenga í fyrsta leik liðsins á tímabilinu en var tekinn af velli í hálfleik. Síðan þá hefur hann annað hvort verið á bekknum eða hreinlega upp í stúku.

„En ég og Martin (Andersen, þjálfari liðsins) erum með áætlun í gangi. Við erum komnir vel á veg og ekki langt þar til ég verð kominn aftur á fullt," sagði Veigar Páll við norska fjölmiðla í dag.

Hluti af áætluninni var að létta sig. „Ég held að ég hafi aldrei verið jafn léttur og ég er í dag," sagði hann í léttum dúr en hann hefur tekið um fimm kíló af sér, segir í frétt TV2 um málið.

„Ég veit ekki hvort ég nái leiknum gegn Lilleström á morgun en það er klárt mál að ég verð með um næstu helgi," bætti hann við.

Þjálfarinn Andersen segir að það sé mikil samkeppni um stöður hjá Vålerenga og óhjákvæmilegt að góðir leikmenn þurfi stundum að sætta sig við bekkjarsetu. Hann segir að meiðsli í lærvöðva hafi einnig gert Veigar Páli erfitt fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×