Fótbolti

Viðurkenndi að hafa skorað mark með hendinni

Það er enginn skortur á óheiðarlegum knattspyrnumönnum sem svífast einskis til þess að hjálpa sínu liði með leikaraskap og öðrum óheiðarlegum brögðum. Þýski knattspyrnumaðurinn Marius Ebbers hjá St. Pauli er svo sannarlega ekki einn þeirra.

Lið hans er í harðri baráttu við að komast upp í efstu deild í Þýskalandi og hann skoraði afar mikilvægt mark í leik tíu mínútum fyrir leikslok sem kom St. Pauli í 2-1.

Dómarinn ákvað að spyrja hann í kjölfarið hvort hann hefði notað hendina er hann skoraði. Ebbers viðurkenndi það og hefur uppskorið heimsathygli fyrir það eitt að vera heiðarlegur knattspyrnumaður.

"Ég sagði dómaranum að ég hefði notað bæði hausinn og hendina er ég skoraði. Þetta var óviljandi," sagði Ebbers.

Heiðarleikinn borgaði sig því St. Pauli skoraði sigurmark í uppbótartíma og vann leikinn.

Sjá má atvikið hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×