Leikurinn var í járnum nánast allan leikinn en lokakaflinn var FH-inga þó svo þeir væru meira og minna manni færri.
Spennustigið var greinilega hátt í upphafi og var sóknarleikur liðanna nokkuð brösóttur. Jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleiknum en Akureyringar voru þó skrefinu framar fyrstu tuttugu mínúturnar. Varnarleikur þeirra var virkilega öflugur ásamt því að Sveinbjörn Pétursson, var að verja vel í markinu.
Bjarni Fritzsson, leikmaður Akureyri, kom sínum mönnum í tveggja marka forystu, 6-8 þegar tæplega átta mínútur voru eftir af hálfleiknum. Við tók góður kafli hjá FH-ingum og skoruðu þeir fjögur mörk gegn einu marki Akureyringa. Sá leikkafli kom þeim í eins mark forystu undir lok hálfleiksins sem þér héldu og var því staðan 10-9, FH-ingum í vil, þegar flautað var til hálfleiks.
FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri og skoruðu fyrstu tvö mörk hálfleiksins. Það tók Akureyringa í kringum sjö mínútur að mæta til leiks í hálfleikinn og þéttu þeir vörnina verulega hjá sér á þessum tímapunkti. Þeim tókst að jafna leikinn þegar rúmlega tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleiknum.
Liðin skiptust á mörkum á næstu mínútum en það voru FH-ingar sem tóku öll völd á vellinum þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þeir voru komnir í þriggja marka forystu, 18-15, þegar tæplega fimm mínútur voru eftir af leiknum og stefndi allt í sigur heimamanna. Þeir héldu þeirri keyrslu áfram og unnu að lokum góðan fimm marka heimasigur, 22-17.
Varnir liðanna voru góðar í leiknum og þá sérstaklega FH-vörnin, en hún var virkilega öflug. Einnig geta bæði lið verið sátt með framlag markavarða sinna en leikurinn réðst aðallega á slökum sóknarleik Akureyringa, en þeir náðu sér aldrei á strik í honum í leiknum.
Næsti leikur liðanna fer fram á miðvikudaginn á Akureyri og geta FH-ingar tryggt sér sæti í úrslitunum með sigri þar.
Kristján: Virkilega öflugir í vörninni

FH-ingar voru reknir útaf í sextán mínútur á meðan Akureyringar voru einungis reknir útaf í fjórar. Kristján fannst dómgæslan þó ekki halla á sitt lið í leiknum.
„Þetta er eiginlega það eina sem ég get sagt um dómgæsluna. Mér fannst nokkrar brottvísanirnar nokkuð ódýrar en annars stóðu dómararnir sig vel," sagði Kristján Arason, þjálfari FH í leikslok.
Andri: Þetta er komið gott í bili
„Þetta byrjaði svolítið rólega hjá okkur í vörninni en þegar við fórum að gera þetta almennilega small þetta hjá okkur. Við sigldum þessu svo að lokum nokkuð örugglega í höfn," sagði Andri.
„Þetta er búið að vera gott einvígi en þetta er komið gott í bili. Við stefnum á sigur á miðvikudaginn," sagði Andri Berg Haraldsson, leikmaður FH, í leikslok.

„Við vorum bara slakari í dag. Þetta er einn af þeim lélegri leikjum sem við höfum spilað sóknarlega held ég. Það sem meira var er að við nýttum brottvísanir þeirra virkilega illa í leiknum. Ég er verulega svekktur með sóknarleikinn í dag.
„Það er ekkert annað í stöðunni en að vinna á miðvikudaginn. Við erum ennþá inn í þessu og við þurfum bara að vinna leikinn á miðvikudaginn og þá er þetta allt opið. Ég hef trú á mínum mönnum, við þurfum bara aðeins að bæta okkar leik. Það er komin þreyta í bæði lið þannig að það er fínt að fá smá tíma núna fram að leik," sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyri í leikslok.