HK-ingar eru einum sigri frá fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í sögu karlahandboltaliðs félagsins og geta tryggt sér hann með sigri á FH í Kaplakrika á sunndaginn. HK vann 3-0 sigur á deildarmeisturum Hauka í undanúrslitunum N1 deildar karla og er nú komið í 2-0 á moti Íslandsmeisturum FH í lokaúrslitunum.
Það eru ekki síst markverðirnir Björn Ingi Friðþjófsson og Arnór Freyr Stefánsson sem hafa staðið sig frábærlega í úrslitakeppninni. Björn Ingi varði yfir fimmtíu prósent skotanna sem komu á hann í fyrstu tveimur leikjunum á móti Haukum og hann varði einnig mjög vel í fyrsta leiknum á móti FH. Arnór var síðan stórbrotinn í öðrum leiknum á móti FH í gær þar sem hann varði 59 prósent skota sem á hann komu.
Í sameiningu hafa þeir Björn Ingi og Arnór Freyr séð til þess að markverðir HK hafa varið fleiri skot en markverðir mótherja þeirra í öllum fimm leikjum úrslitakeppninnar til þessa.
Markvarslan sem átti að mati einhverra að vera veikleiki HK-liðsins fyrir úrslitakeppnina hefur aftur á móti reynst vera helsti styrkleiki HK-inga. Hér fyrir neðan má sjá frábæra tölfræði markvarða HK í úrslitakeppninni til þessa.
Markverðir HK í úrslitakeppni N1 deildar karla 2012:
Undanúrslitaeinvígið við Hauka:
1. leikur 30-24 sigur á Ásvöllum
Varin skot hjá HK: 19
Varin skot hjá Haukum: 16/1
2. leikur 21-18 sigur í Digranesi
Varin skot hjá HK: 21/1
Varin skot hjá Haukum: 15/1
3. leikur 36-31 sigur á Ásvöllum
Varin skot hjá HK: 15
Varin skot hjá Haukum: 13
Úrslitaeinvígið við FH:
1. leikur 26-23 sigur í Kaplakrika
Varin skot hjá HK: 19/1
Varin skot hjá FH: 11
2. leikur 29-26 sigur í Digranesi
Varin skot hjá HK: 21/3
Varin skot hjá Haukum: 18/1
Markvarsla Björns Inga Friðþjófssonar:
Haukar, leikur 1: 16 (53%)
Haukar, leikur 2: 19 (51%)
Haukar, leikur 3: 8 (29%)
FH, leikur 1: 19/1 (45%)
FH, leikur 2: 2 (13%)
Samanlagt: 64/1 (42%)
Markvarlsa Arnórs Freys Stefánssonar:
Haukar, leikur 1: 3 (23%)
Haukar, leikur 2: 2/1 (100%)
Haukar, leikur 3: 7 (39%)
FH, leikur 1: Lék ekki
FH, leikur 2: 19/3 (59%)
Samanlagt: 31/4 (48%)

