Golf

Eimskipsmótaröðin: Ísak slakaði á með kærustunni yfir Júróvisjón

„Ég eyddi gærkvöldinu bara með kærustunni að fylgjast með Júróvisjón," sagði Ísak Jasonarson úr Keili þegar hann mætti til leiks á lokakeppnisdegi fyrsta mótsins á Eimskipsmótaröðinni í golfi á Hólmsvelli í Leiru í dag. Ísak er á 17. aldursári og er ekki með bílpróf en hann er ekkert stressaður yfir því að vera í síðasta ráshópnum í dag með einum reynslumesta kylfing landsins. Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG og Ísak eru jafnir í efsta sæti á 72 höggum en þeir léku báðir á pari Hólmsvallar í Leiru í vondu veðri í gær.

„Ég fékk far hingað með Arnóri vini mínum," sagði Ísak þegar hann var spurður að því hvernig hann hafi komið sér á keppnisstaðinn. „Mér líst vel á þetta í dag, frábærar aðstæður og miklu skemmtilegra að spila í svona veðri. Birgir Leifur er einn af þeim kylfingum sem ég hef litið upp til á undanförnum árum. Ég hlakka bara til að fá að spila með honum," bætti Ísak við. Unglingurinn úr Keili er ekki með kylfubera með sér í þessu móti frekar en öðrum mótum . „Mér finnst betra að vera einn og ég er að vanur því að vera ekki með aðstoðarmann. Ég þarf að spila á hörkuskori ef ég ætla mér að halda mig við toppinn. Skorið hjá mér kom mér ekkert á óvart í gær en það kom á óvart í hvaða sæti það skilaði mér," sagði Ísak Jasonarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×