Í kvöld lá fyrir hvaða keppendur mætast í undanúrslitum á Íslandsmótinu í holukeppni sem fram fer rjómablíðu í Leirdalnum í Kópavogi.
Í karlaflokki mætast Hlynur Geir Hjartarson og Birgir Leifur Hafþórsson annars vegar og Rúnar Arnórsson og Haraldur Franklín Magnús hins vegar.
Hlynur og Birgir Leifur hefja leik klukkan 7.30 í fyrramálið og þeir Rúnar og Haraldur fara af stað átta mínútum síðar.
Í undanúrslitum kvenna mætast Tinna Jóhannsdóttir og Signý Arnórsdóttir í fyrri leiknum og þær Ingunn Gunnarsdóttir og Anna Sólveig Snorradóttir í þeim seinni. Tinna og Signý byrja klukkan 7.46 og þær Ingunn og Anna koma svo í humátt á eftir.
