Matthías Vilhjálmsson og félagar í Start eru komnir á topp norsku b-deildarinnar eftir 2-0 sigur á Ullensaker/Kisa í dag. Matthías skoraði fyrra mark Start í leiknum.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Matthías Start á bragðið með marki á 56. mínútu. Þetta var áttunda mark Matthíasar í ellefu leikjum hjá Start en hann hefur spilað í stöðu framherja hjá liðinu.
Leikar stóðu 1-0 þar til á lokamínútunni þegar framherjinn Ernest Asante frá Ghana tryggði heimamönnum stigin þrjú.
Með sigrinum náði Start þriggja stiga forskoti á á Ullensaker/Kisa á toppi norsku b-deildarinnar en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn.
Bolvíkingurinn Guðmundur Kristjánsson lék allan leikinn á miðjunni hjá Start.

