Fótbolti

Katrín hélt hreinu í 55 mínútur en fékk svo á sig tvö mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ómarsdóttir er hér lengst til vinstri ásamt Elínu Mettu og Þóru Helgadóttur markverði íslenska landsliðsins.
Katrín Ómarsdóttir er hér lengst til vinstri ásamt Elínu Mettu og Þóru Helgadóttur markverði íslenska landsliðsins. Mynd/Daníel
Íslensku stelpurnar Kristianstad náðu ekki að hjálpa löndum sínum í LdB FC Malmö í baráttunni um sænska meistaratitilinn í dag þegar Kristianstad-liðið tapaði 0-2 á heimavelli á móti Tyresö FF í 20. umferð sænsku kvennadeildarinnar. Tyresö minnkaði forskot Malmö á toppnum í tvö stig en Malmö-liðið á leik inni.

Katrín Ómarsdóttir þurfti að fara í markið hjá Kristianstad þegar markvörður liðsins meiddist eftir tíu mínútur. Katrín hélt markinu hreinu í 55 mínútur en fékk síðan tvö mörk á sig í lokin.

Hollenska landsliðskonan Kirsten van de Ven skoraði bæði mörk Tyresö í leiknum en hin brasilíska Marta tók út leikbann í dag.

Katrín hafði nóg að gera í leiknum því samkvæmt tölfræði sænska sambandsins þá fékk hún 11 skot á sig á meðan hún var í marki Kristianstad.

Margrét Lára Viðarsdóttir og Sif Atladóttir voru báðar í byrjunarliði Kristianstad og Guðný Björk Óðinsdóttir kom síðan inn á sem varamaður en hún er að koma til baka eftir að hafa slitið krossband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×