Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði bæði mörkin þegar Avaldsnes vann 2-0 útisigur á Voss í norsku b-deildinni í fótbolta í dag. Avaldsnes er með þrettán stiga forskot á toppnum og þegar búið að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Hólmfríður skoraði mörkin sín á 69. og 86. mínútu leiksins en þrír aðrir íslenskir leikmenn voru í byrjunarliðinu, Björk Björnsdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir.
Þórunn Helga Jónsdóttir meiddist í upphafi leiks og var skipt útaf á 1. mínútu leiksins. Hinar þrjár kláruðu hinsvegar allan leikinn.
Hólmfríður Magnúsdóttir hefur þar með skorað 25 mörk í 20 leikjum í norsku b-deildinni en Kristín Ýr er með 22 mörk.

