Fótbolti

Ajax sundurspilaði Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City er annað árið í röð komið í erfiða stöðu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar eftir 1-3 tap á móti frábæru liði Ajax. Ajax sundurspilaði ensku meistarana og fagnaði sínum fyrsta sigri í Meistaradeildinni í ár.

Manchester City situr nú í botnsæti riðilsins með 1 stig af 9 mögulegum. Ajax er með 3 stig og efstu tvö liðin eru síðan Dortmund (7 stig) og Real Madrid (6 stig)

Samir Nasri kom Manchester City í 1-0 á 22. mínútu eftir sendingu inn fyrir frá James Milner. Nasri lék á markvörðinn og skoraði af öryggi.

Ajax-menn voru betri í fyrri hálfleiknum og áttu skilið að jafna. Jöfnunarmarkið kom samt ekki fyrr en á lokamínútu hálfleiksins þegar Siem De Jong skoraði með flottu og föstu skoti úr teignum eftir sendingu frá Ricardo van Rhijn.

Ajax-liðið hélt uppteknum hætti í seinni hálfleiknum og Niklas Moisander kom liðinu yfir á 57. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Christian Eriksen.

Christian Eriksen var síðan sjálfur á ferðinni tólf mínútum síðar þegar hann labbaði í gegnum vörn ensku meistana og skoraði með skoti sem hafði reyndar viðkomu í varnarmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×