Golf

Rory fær öll stærstu verðlaunin

Norður-Írinn Rory McIlroy sópar upp verðlaunum þessa dagana. Hann hefur nú verið útnefndur besti kylfingurinn á PGA-mótaröðinni og fékk einnig Vardon-bikarinn sem er veittur þeim kylfingi sem nær lægsta meðalskorinu á PGA-mótaröðinni.

Þetta er í fyrsta skipti sem McIlroy hlýtur þessi verðlaun. Til samanburðar má nefna að Tiger Woods hefur tíu sinnum verið valinn bestur á PGA-mótaröðinni og átta sinnum hefur hann fengið Vardon-bikarinn.

McIlroy vann fjögur mót á árinu og þar á meðal PGA-meistaramótið. Hann er fjórði yngsti maðurinn sem er valinn bestur á mótaröðinni.

Árið var ótrúlegt hjá þessum 23 ára kylfingi en hann var efstur á peningalistanum bæði á PGA-mótaröðinni sem og á Evrópumótaröðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×