Fótbolti

Eyjólfur skoraði og Rúrik lagði upp mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Eyjólfur Héðinsson kom SönderjyskE i 1-0 á móti FC Kaupmannahöfn í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en það dugði ekki til því FCK tryggði sér öll þrjú stigin með tveimur mörkum í seinni hálfleik.

Fjórir íslenskir leikmenn léku allan leikinn, Rúrik Gíslason og Ragnar Sigurðsson hjá FCK og þeir Eyjólfur Héðinsson og Hallgrímur Jónasson hjá SönderjyskE.

Eyjólfur skoraði markið sitt á 31. mínútu og staðan var 1-0 þar til að Andreas Cornelius jafnaði á 48. mínútu eftir stoðsendingu frá Rúrik Gíslasyni.

Andreas Cornelius skoraði síðan sigurmark FCK á 78. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu sem var dæmd á Hallgrím Jónasson fyrir brot á Cornelius.

FC Kaupmannahöfn er í efsta sæti með 41 stig og níu stiga forskot á næsta lið en SönderjyskE er í 10. sæti sem er síðasta örugga sætinu í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×