Theo Walcott er meiddur á öxl og verður ekki með Arsenal gegn Montpellier í Meistaradeild Evrópu á morgun.
Walcott meiddist í 5-2 sigri Arsenal á Tottenham um helgina. Hann kláraði þó leikinn og skoraði síðasta mark sinna manna í uppbótartíma.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sagði að Walcott hafi ekki æft í dag. „Hann fer í myndatöku í dag og þá kemur í ljós hvort það séu einhverjar skemmdir," sagði Wenger.
„Hann verður því ekki með á morgun en ég á von á því að hann muni jafna sig fljótt á þessu."
Andre Santos verður ekki með vegna meiðsla en þeir Gervinho og Kieran Gibbs verða báðir leikfærir á ný eftir að hafa verið frá að undanförnu.
Arsenal er í öðru sæti B-riðils í Meistaradeildinni með sjö stig. Schalke er á toppnum með átta en Olympiakos í þriðja sæti með sex stig. Montpellier er neðst með eitt stig.
