Aron Jóhannsson var enn og aftur á skotskónum er lið hans, AGF, gerði jafntefli, 3-3, í bráðfjörugum leik gegn botnliði Silkeborg. Þetta var fjórtánda mark Arons fyrir AGF á tímabilinu.
Aron kom AGF yfir á 28. mínútu en Silkeborg kom til baka og gott betur því liðið komst í 1-3. Fátt benti til annars en að AGF myndi tapa leiknum en þá kom frábær endasprettur. Liðið skoraði tvö mörk á siðustu fimm mínútunum og bjargaði stigi.
AGF hefði getað komist upp í þriðja sæti deildarinnar með sigri en situr áfram í sjötta sæti dönsku úrvaldeildarinnar eftir leikinn.
