Forsetakjör á nýjum forsendum Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar 3. janúar 2012 06:00 Komandi forsetakjör kann að verða ólíkt þeim fyrri í ljósi þess að sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur breytt eðli embættis síns. Það er eiginlega orðin klisja að segja það en embættið er orðið pólitískara. Skýrasta dæmið er án efa að Ólafur virkjaði málskotsrétt forseta með því að hafna í þrígang að skrifa undir lög frá Alþingi. Þá hefur Ólafur í raun leyft sér hin síðari ár að reka eigin utanríkisstefnu án, að því er virðist, mikils samráðs við utanríkisþjónustuna. Með þessi fordæmi til staðar er eftir meiru að slægjast fyrir stjórnmálahreyfingar landsins að koma „sínum manni" að. Það er því enn mikilvægara en áður að frambjóðendur geri glögglega grein fyrir því hvernig þeir myndu haga sér í embætti. Mundu þeir vísa öllum, sumum eða engum umdeildum málum í dóm þjóðarinnar? Og hvað mundu þeir leggja til grundvallar við slíka ákvarðanatöku? Þá þurfa kjósendur vitaskuld að ákveða hvernig þeir vilja að forseti fari með völd sín. Það er tvennt sem er umhugsunarvert í þessu samhengi. Kjósendur þurfa að gera sér grein fyrir því hvernig pólitískur forseti hefur áhrif á Alþingi. Komið hefur í ljós að forseti getur skaðað ríkisstjórn með því að vísa umdeildu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flestar ríkisstjórnir vilja eða þurfa að koma umdeildum málum í gegnum þingið á starfstíma sínum. Pólitískur forseti kann að gera ríkisstjórnir tregari til þess. Hvort það er æskilegt er vangaveltna virði. Hér má þó benda á að í tillögum Stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að 10 prósent kjósenda geti vísað lögum til þjóðarinnar. Fari sú tillaga í stjórnarskrá verður málskotsrétturinn í raun óþarfur. Í annan stað ber að skoða hvort núverandi skipulag forsetakjörs sé hið skynsamlegasta í ljósi þess að verið er að kjósa í pólitískt embætti. Sá einstaklingur er kjörinn forseti sem hlýtur flest atkvæði frambjóðenda. Það þýðir hins vegar ekki að sá njóti mests stuðnings séu frambjóðendur fleiri en tveir. Hægt er að ímynda sér að talsmaður ákveðinnar hugmyndafræði nái kjöri, ekki þar sem sú hugmyndafræði eigi upp á pallborðið, heldur vegna þess að talsmenn annarrar hugmyndafræði deila bróðurlega atkvæðum meirihlutans. Hvort skynsamlegra sé að kjósa forseta í tveimur umferðum, eins og Frakkar gera, skal ósagt látið en breytt eðli embættisins gefur tilefni til slíkra vangaveltna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Þorlákur Lúðvíksson Mest lesið Ótryggt aðgengi á Veðurstofureit Friðjón R. Friðjónsson Skoðun Stattu vörð um launin þín Davíð Aron Routley Skoðun Byggjum fyrir eldra fólk, ekki ungt Ólafur Margeirsson Skoðun Sönnun um framlag hælisleitanda til íslensks samfélags Toshiki Toma Skoðun Hlustum í eitt skipti á foreldra Jón Pétur Zimsen Skoðun Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi mega lögum samkvæmt ekki eiga viðskipti við Rapyd Björn B Björnsson Skoðun Ég vildi óska þess að ég hefði hreinlega fengið krabbamein Íris Elfa Þorkelsdóttir Skoðun Andaðu rólega elskan... Ester Hilmarsdóttir Skoðun Að eitra Hvalfjörð Haraldur Eiríksson Skoðun Ekki sprengja börn! Ellen Calmon Skoðun
Komandi forsetakjör kann að verða ólíkt þeim fyrri í ljósi þess að sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur breytt eðli embættis síns. Það er eiginlega orðin klisja að segja það en embættið er orðið pólitískara. Skýrasta dæmið er án efa að Ólafur virkjaði málskotsrétt forseta með því að hafna í þrígang að skrifa undir lög frá Alþingi. Þá hefur Ólafur í raun leyft sér hin síðari ár að reka eigin utanríkisstefnu án, að því er virðist, mikils samráðs við utanríkisþjónustuna. Með þessi fordæmi til staðar er eftir meiru að slægjast fyrir stjórnmálahreyfingar landsins að koma „sínum manni" að. Það er því enn mikilvægara en áður að frambjóðendur geri glögglega grein fyrir því hvernig þeir myndu haga sér í embætti. Mundu þeir vísa öllum, sumum eða engum umdeildum málum í dóm þjóðarinnar? Og hvað mundu þeir leggja til grundvallar við slíka ákvarðanatöku? Þá þurfa kjósendur vitaskuld að ákveða hvernig þeir vilja að forseti fari með völd sín. Það er tvennt sem er umhugsunarvert í þessu samhengi. Kjósendur þurfa að gera sér grein fyrir því hvernig pólitískur forseti hefur áhrif á Alþingi. Komið hefur í ljós að forseti getur skaðað ríkisstjórn með því að vísa umdeildu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flestar ríkisstjórnir vilja eða þurfa að koma umdeildum málum í gegnum þingið á starfstíma sínum. Pólitískur forseti kann að gera ríkisstjórnir tregari til þess. Hvort það er æskilegt er vangaveltna virði. Hér má þó benda á að í tillögum Stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að 10 prósent kjósenda geti vísað lögum til þjóðarinnar. Fari sú tillaga í stjórnarskrá verður málskotsrétturinn í raun óþarfur. Í annan stað ber að skoða hvort núverandi skipulag forsetakjörs sé hið skynsamlegasta í ljósi þess að verið er að kjósa í pólitískt embætti. Sá einstaklingur er kjörinn forseti sem hlýtur flest atkvæði frambjóðenda. Það þýðir hins vegar ekki að sá njóti mests stuðnings séu frambjóðendur fleiri en tveir. Hægt er að ímynda sér að talsmaður ákveðinnar hugmyndafræði nái kjöri, ekki þar sem sú hugmyndafræði eigi upp á pallborðið, heldur vegna þess að talsmenn annarrar hugmyndafræði deila bróðurlega atkvæðum meirihlutans. Hvort skynsamlegra sé að kjósa forseta í tveimur umferðum, eins og Frakkar gera, skal ósagt látið en breytt eðli embættisins gefur tilefni til slíkra vangaveltna.
Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi mega lögum samkvæmt ekki eiga viðskipti við Rapyd Björn B Björnsson Skoðun
Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi mega lögum samkvæmt ekki eiga viðskipti við Rapyd Björn B Björnsson Skoðun