Hann var vitanlega hæstánægður með viðurkenninguna en segir að hann hafi ekkert leitt hugann að því hvort hann taldi sig eiga möguleika áður en listi yfir þá tíu sem flest atkvæði fengu í kjörinu var birtur í fjölmiðlum á aðfangadag.
„En þá vildi maður auðvitað vinna þetta," sagði hann. „En ég get ekki sagt að þetta sé eitthvað sem ég átti nokkru sinni von á að fá. Þetta var því óvænt og mikil ánægja. Ég er stoltur af þessari útnefningu og þetta fer nálægt því að vera toppurinn á mínum ferli."
Besta árið á ferlinum

Hann segir að það standi upp úr á knattspyrnuferlinum að hafa komist upp í úrvalsdeildina með QPR eftir nokkur skrautleg ár hjá félaginu. Heiðar samdi við það sem lánsmaður frá Bolton í nóvember árið 2008, skoraði mikið og var svo keyptur í janúar 2009. Félagið gekk í gegnum miklar breytingar á næstu árum og Heiðar fékk ekki alltaf að spila eins mikið og hann vildi. Hann var til að mynda lánaður í tvígang til Watford, sem hann lék með frá 2000 til 2005.
„Það var toppurinn að komast upp. Ég hef eytt meirihlutanum af mínum ferli í þessari deild og eiginlega aldrei áður tekið í toppbaráttunni. Það hafði reynst erfitt fyrir QPR að komast upp, sérstaklega eftir ruglið sem gekk á síðustu 2-3 ár á undan. Það var í raun algjör sirkus," segir Heiðar en hann hrósar Neil Warnock, núverandi knattspyrnustjóra, mikið en hann tók við liðinu í mars árið 2010. „Hann náði að snúa gengi liðsins við á aðeins fjórtán mánuðum og kom því upp í úrvalsdeildina."
Átti að fá fleiri ár í úrvalsdeildinni

„Mér finnst að ég hefði átt að fá fleiri ár í ensku úrvalsdeildinni. Ég spilaði mismikið á þeim 4-5 árum sem ég var í henni og ef ég hefði ekki meiðst er aldrei að vita hvað hefði gerst," sagði Heiðar sem segist þó ekki sjá eftir neinu. „Það þýðir ekkert að ætla að breyta einhverju eftir á. Ég hef tekið mínar ákvarðanir og þarf að standa með þeim."
Heiðar er nýbúinn að framlengja samning sinn við QPR til loka tímabilsins 2013. Hann segist ekki vita hvað taki við þá. „Ef maður hefur heilsu og áhuga til að halda áfram þá gerir maður það," sagði hann og útilokaði ekki að starfa áfram í knattspyrnuheiminum. „Ég hef verið að fara á þjálfaranámskeið en framhaldið er þó óákveðið."
Gott að hafa fjölskylduna

„Hún hefur ávallt gefið mér mjög mikið. Sama hvernig gengur í fótboltanum þá er fjölskyldulífið alltaf eins – það þarf að vakna með strákunum og fara með þá í skólann. Það breytist ekki og heldur manni á jörðinni," sagði íþróttamaður ársins 2011.