Handbolti

Einar um Sijan: Þetta er bara brandari

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sijan fagnar hér í leik með þýska liðinu Flensburg.
Sijan fagnar hér í leik með þýska liðinu Flensburg. Nordic Photos / Getty Images
Serbneski handboltamarkvörðurinn Dane Sijan hélt því fram í viðtali við TV2 í Danmörku um helgina að Ísland hefði reynt að kaupa sig fyrir 2-3 árum.

Sijan, sem leikur með Viborg í Danmörku og var áður hjá Flensburg í Þýskalandi, sagðist hafa fengið freistandi tilboð frá Íslandi en hefði hafnað því þar sem hann nennti ekki að bíða í þrjú ár eftir því að spila næst landsleik. Það er sá tími sem þarf að líða þegar menn skipta um ríkisfang.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, segist ekkert skilja í þessum yfirlýsingum Serbans. „Þetta er bara brandari. HSÍ hefur aldrei talað við þennan mann og myndi ekki fara í slíkar aðgerðir. Hann hefði þurft að flytja hingað og búa í þrjú ár áður en hann gæti spilað með landsliðinu. Þetta er fáránlegt og ég fór að hlæja er ég sá þetta," sagði Einar ákveðinn.

„Við höfum ekki einu sinni getu til þess að bjóða svona lagað og þess utan vinnum við ekki á þennan hátt."

Arnar Freyr Theodórsson er umboðsmaður Sijan og hann segir að rangt hafi verið haft eftir skjólstæðingi sínum á TV2.

„Það var maður ótengdur HSÍ sem viðraði þessa hugmynd Dane árið 2005 eða 2006. Sá maður ræddi einnig óformlega við þáverandi umboðsmann Dane. Þar við sat. Aldrei var rætt um neina peningaupphæðir eða annað. Þetta mál fór aldrei á alvarlegt stig," sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×