Fóstbræðralag Þorsteinn Pálsson skrifar 4. febrúar 2012 06:00 Kópavogur hefur dregið að sér nokkra athygli vegna viðræðna um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn, en þó ekki sem skyldi. Ástæðan fyrir því að þær ættu að vekja meiri athygli er sú að þar birtist fyrirmynd að nýrri pólitískri stöðu á landsvísu. Pólitísk samvinna VG og Samfylkingarinnar sem sjálfstæðra flokka er að breytast í eins konar fóstbræðralag sem kemur fram sem ein heild. Í tengslum við landsfundi stjórnarflokkanna í vetrarbyrjun lýstu formenn beggja yfir því að þeir stefndu að áframhaldandi samstarfi eftir næstu kosningar. Það sem meira var: Þeir töldu að eitt og það sama ætti yfir báða flokkana að ganga. Annað hvort yrðu þeir saman í ríkisstjórn eða saman í stjórnarandstöðu. Segja má að breytingarnar á ríkisstjórninni um áramót hafi endurspeglað fyrstu verklegu framkvæmd þéttari samstöðu af þessu tagi. Þá sömdu flokksformennirnir um gagnkvæman ruðningsrétt. Hvor þeirra fékk að víkja þeim ráðherra úr röðum samstarfsflokksins sem honum var í mest í nöp við. Þetta er nýlunda. Viðræðurnar um myndun meirihluta í Kópavogi eru annað dæmi um framkvæmd þessara áforma flokksformannanna. Í samræmi við viljayfirlýsingu þeirra ákváðu bæjarfulltrúar beggja að lúta sama lögmáli: Þeir yrðu saman í meirihluta eða minnihluta. Ekkert fengi klofið samstarf þeirra þannig að líta mætti á þá sem tvær sjálfstæðar heildir.Hamskipti Landsdómsmálið er þriðja dæmið um að samstarf flokkanna er að breytast í fóstbræðralag. Þegar það mál kom fyrst til kasta Alþingis greiddi forsætisráðherra atkvæði gegn ákæru og sagði að málið væri með öllu óháð stjórnarsamstarfinu. Formaður Samfylkingarinnar snýr nú við blaðinu og gerir það að ríkisstjórnarmáli í samræmi við óskir VG. Forsætisráðherra sagði þannig á nýafstöðnum flokksráðsfundi Samfylkingarinnar að það jafngilti því að setja fleyg í ríkisstjórnarsamstarfið að falla frá ákæru. Fyrir rúmu ári byggðist afstaðan á persónubundnu lögfræðilegu mati hvers þingmanns. Nú er fóstbræðralag stjórnarflokkanna í húfi. Þessi hamskipti bera órækt vitni um nýja vídd í samstarfi stjórnarflokkanna og þéttara bræðralag. Fjórða fóstbræðralagsdæmið birtist í sameiginlegri grein formanna stjórnarflokkanna í þessu blaði í tilefni af þriggja ára afmæli stjórnarsamstarfsins. Þar segir það eitt um Evrópusambandsmálið að verið sé að kanna, að ósk Alþingis, kosti og galla aðildar. Í tilefni tímamótanna hefur formaður Samfylkingarinnar einfaldlega fallist á þá skoðun VG að samþykkt Alþingis um að sækja um aðild að Evrópusambandinu feli aðeins í sér könnun á kostum þess og göllum. Fram til þessa hefur Samfylkingin talið það styrkja stöðu sína að hafa sérstöðu í þessu stóra máli. Nú hefur hún verið rækilega þynnt út með umtalsverðri pólitískri eftirgjöf. En á móti uppsker Samfylkingin traustara samstarf við VG. Þingmenn beggja flokkanna fá meira öryggi fyrir því að þeir séu í raun tilbúnir að deila örlögum saman í blíðu og stríðu innan sem utan stjórnar. Þetta síðasta skref í samstarfi flokkanna í tilefni afmælisins ætti um leið að vera gleðiefni fyrir andstæðinga aðildarumsóknarinnar.Ekki er allt sem sýnist Almennar stjórnmálafréttir gefa aðra mynd af stjórnarsamstarfinu. Þær snúast yfirleitt um hatrömm átök, togstreitu, brigslyrði og væringar. Ekkert bendir til að þar sé ofhermt. Hvernig getur sú mynd rímað við þá kenningu að hefðbundið ríkisstjórnarsamstarf tveggja sjálfstæðra flokka sé að breytast í fóstbræðralag? Þegar betur er að gáð liggur skýringin í augum uppi. Afleiðingin af átökum Steingríms J. Sigfússonar við vinstrivæng Ögmundar Jónassonar hefur leitt til þess að formaðurinn hefur lagt ofurþunga á að draga Samfylkinguna lengra til vinstri. Jóhanna Sigurðardóttir hefur létt honum róðurinn með því að færa Samfylkinguna þangað. Vinstrivængurinn í Samfylkingunni hefur náð undirtökum í flokknum og frjálslyndum ráðherrum verið vikið til hliðar. Það hefur eðlilega orsakað ólgu. Þessi bræðralagsþróun er því bæði afleiðing og orsök innbyrðis átaka. Þau hafa rýrt traust stjórnarflokkanna og forystumanna þeirra meðal almennings. En fóstbræðralagið er andsvar leiðtoganna. Pólitískt líf beggja er undir því komið að það haldi og svo virðist sem báðir hafi meirihlutastuðning innandyra til að dýpka samstarfið í þeim tilgangi. Ekki er á vísan að róa með atfylgi kjósenda við þetta nýja fóstbræðralag en stjórnin gæti samt haldið velli eftir næstu kosningar með aðstoð Guðmundar Steingrímssonar og hugsanlega Framsóknarflokksins, þótt smáflokkaaðstoð hafi ekki nýst þeim til lengdar í Kópavogi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Fjórar leiðir til að verða besta útgáfan af þér Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Allir geta drukknað en enginn þarf að drukkna Hildur Vattnes Kristjánsdóttir Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn og fátæka fólkið Yngvi Ómar Sighvatsson ,Jón Ferdínand Estherarson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun
Kópavogur hefur dregið að sér nokkra athygli vegna viðræðna um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn, en þó ekki sem skyldi. Ástæðan fyrir því að þær ættu að vekja meiri athygli er sú að þar birtist fyrirmynd að nýrri pólitískri stöðu á landsvísu. Pólitísk samvinna VG og Samfylkingarinnar sem sjálfstæðra flokka er að breytast í eins konar fóstbræðralag sem kemur fram sem ein heild. Í tengslum við landsfundi stjórnarflokkanna í vetrarbyrjun lýstu formenn beggja yfir því að þeir stefndu að áframhaldandi samstarfi eftir næstu kosningar. Það sem meira var: Þeir töldu að eitt og það sama ætti yfir báða flokkana að ganga. Annað hvort yrðu þeir saman í ríkisstjórn eða saman í stjórnarandstöðu. Segja má að breytingarnar á ríkisstjórninni um áramót hafi endurspeglað fyrstu verklegu framkvæmd þéttari samstöðu af þessu tagi. Þá sömdu flokksformennirnir um gagnkvæman ruðningsrétt. Hvor þeirra fékk að víkja þeim ráðherra úr röðum samstarfsflokksins sem honum var í mest í nöp við. Þetta er nýlunda. Viðræðurnar um myndun meirihluta í Kópavogi eru annað dæmi um framkvæmd þessara áforma flokksformannanna. Í samræmi við viljayfirlýsingu þeirra ákváðu bæjarfulltrúar beggja að lúta sama lögmáli: Þeir yrðu saman í meirihluta eða minnihluta. Ekkert fengi klofið samstarf þeirra þannig að líta mætti á þá sem tvær sjálfstæðar heildir.Hamskipti Landsdómsmálið er þriðja dæmið um að samstarf flokkanna er að breytast í fóstbræðralag. Þegar það mál kom fyrst til kasta Alþingis greiddi forsætisráðherra atkvæði gegn ákæru og sagði að málið væri með öllu óháð stjórnarsamstarfinu. Formaður Samfylkingarinnar snýr nú við blaðinu og gerir það að ríkisstjórnarmáli í samræmi við óskir VG. Forsætisráðherra sagði þannig á nýafstöðnum flokksráðsfundi Samfylkingarinnar að það jafngilti því að setja fleyg í ríkisstjórnarsamstarfið að falla frá ákæru. Fyrir rúmu ári byggðist afstaðan á persónubundnu lögfræðilegu mati hvers þingmanns. Nú er fóstbræðralag stjórnarflokkanna í húfi. Þessi hamskipti bera órækt vitni um nýja vídd í samstarfi stjórnarflokkanna og þéttara bræðralag. Fjórða fóstbræðralagsdæmið birtist í sameiginlegri grein formanna stjórnarflokkanna í þessu blaði í tilefni af þriggja ára afmæli stjórnarsamstarfsins. Þar segir það eitt um Evrópusambandsmálið að verið sé að kanna, að ósk Alþingis, kosti og galla aðildar. Í tilefni tímamótanna hefur formaður Samfylkingarinnar einfaldlega fallist á þá skoðun VG að samþykkt Alþingis um að sækja um aðild að Evrópusambandinu feli aðeins í sér könnun á kostum þess og göllum. Fram til þessa hefur Samfylkingin talið það styrkja stöðu sína að hafa sérstöðu í þessu stóra máli. Nú hefur hún verið rækilega þynnt út með umtalsverðri pólitískri eftirgjöf. En á móti uppsker Samfylkingin traustara samstarf við VG. Þingmenn beggja flokkanna fá meira öryggi fyrir því að þeir séu í raun tilbúnir að deila örlögum saman í blíðu og stríðu innan sem utan stjórnar. Þetta síðasta skref í samstarfi flokkanna í tilefni afmælisins ætti um leið að vera gleðiefni fyrir andstæðinga aðildarumsóknarinnar.Ekki er allt sem sýnist Almennar stjórnmálafréttir gefa aðra mynd af stjórnarsamstarfinu. Þær snúast yfirleitt um hatrömm átök, togstreitu, brigslyrði og væringar. Ekkert bendir til að þar sé ofhermt. Hvernig getur sú mynd rímað við þá kenningu að hefðbundið ríkisstjórnarsamstarf tveggja sjálfstæðra flokka sé að breytast í fóstbræðralag? Þegar betur er að gáð liggur skýringin í augum uppi. Afleiðingin af átökum Steingríms J. Sigfússonar við vinstrivæng Ögmundar Jónassonar hefur leitt til þess að formaðurinn hefur lagt ofurþunga á að draga Samfylkinguna lengra til vinstri. Jóhanna Sigurðardóttir hefur létt honum róðurinn með því að færa Samfylkinguna þangað. Vinstrivængurinn í Samfylkingunni hefur náð undirtökum í flokknum og frjálslyndum ráðherrum verið vikið til hliðar. Það hefur eðlilega orsakað ólgu. Þessi bræðralagsþróun er því bæði afleiðing og orsök innbyrðis átaka. Þau hafa rýrt traust stjórnarflokkanna og forystumanna þeirra meðal almennings. En fóstbræðralagið er andsvar leiðtoganna. Pólitískt líf beggja er undir því komið að það haldi og svo virðist sem báðir hafi meirihlutastuðning innandyra til að dýpka samstarfið í þeim tilgangi. Ekki er á vísan að róa með atfylgi kjósenda við þetta nýja fóstbræðralag en stjórnin gæti samt haldið velli eftir næstu kosningar með aðstoð Guðmundar Steingrímssonar og hugsanlega Framsóknarflokksins, þótt smáflokkaaðstoð hafi ekki nýst þeim til lengdar í Kópavogi.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn og fátæka fólkið Yngvi Ómar Sighvatsson ,Jón Ferdínand Estherarson Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn og fátæka fólkið Yngvi Ómar Sighvatsson ,Jón Ferdínand Estherarson Skoðun