Handbolti

Alfreð náði yfirhöndinni í einvíginu gegn Guðmundi

Alfreð Gíslason og Guðmundur Guðmundsson stýra tveimur af stærstu handboltaliðum heims. Alfreð hefur náð frábærum árangri með Kiel í vetur en liðið hafði betur gegn Guðmundi og lærisveinum hans í gær.
Alfreð Gíslason og Guðmundur Guðmundsson stýra tveimur af stærstu handboltaliðum heims. Alfreð hefur náð frábærum árangri með Kiel í vetur en liðið hafði betur gegn Guðmundi og lærisveinum hans í gær. Nordic Photos / Getty Images
Kiel er enn með fullt hús stiga í þýsku úrvalsdeildinni eftir átta marka sigur á Rhein-Neckar Löwen á heimavelli í gær, 33-25. Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel og hefur náð ótrúlegum árangri með liðið á tímabilinu en liðið hefur unnið 21 leik á tímabilinu. Ekkert lið hefur byrjað betur í sögu deildarinnar.

Kiel vann síðustu þrjá leiki sína á síðasta tímabili og sigrarnir eru því orðnir 24 í röð.

Alfreð og Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen, voru búnir að mætast fimm sinnum með lið sín fyrir leikinn í gærkvöldi og voru með jafnan árangur. Lið Alfreðs var búið að vinna tvo leiki, lið Guðmundar var búið að vinna tvo leiki og einum leik hafði lyktað með jafntefli.

Rhein-Neckar-Löwen vann báða deildarleiki liðanna í fyrra en Alfreð er nú kominn með undirtökin í einvígi þessara kappa sem léku lengi saman í íslenska landsliðinu á sínum tíma.

Rhein-Neckar Löwen komst yfir, 2-1, í gær en þá tók tékkneska skyttan Filip Jicha leikinn í sínar hendur. Hann skoraði fjögur fyrstu mörk Kiel í leiknum og kom sínum mönnum yfir. Heimamenn létu forystuna aldrei af hendi eftir það og skoraði Jicha alls tíu mörk í leiknum.

Skoruðu ekki í tíu mínútur
Miklu munaði um tíu mínútna kafla um miðbik hálfleiksins þar sem Löwen náði ekki að skora eitt einasta mark. Ekkert gekk upp í sóknarleik liðsins, sama hvað Guðmundur reyndi. Að sama skapi gekk allt upp hjá Kiel og skipti engu hvaða leikmönnum Alfreð tefldi fram hverju sinni.

Kiel brunaði fram úr og náði átta marka forystu, 14-6. Staðan var svo 17-9 í hálfleik en leikurinn var aldrei spennandi í síðari hálfleiknum. Aron Pálmarsson fékk sínar mínútur og skoraði eitt mark en Róbert Gunnarsson náði ekki að komast á blað hjá Löwen, þó svo að hann hafi mikið spilað í seinni hálfleik. Uwe Gensheimer var markahæstur hjá Löwen með átta mörk í gær.

Mánuður í næsta toppleik hjá KielÞað er erfitt að sjá fyrir hvort og þá hvenær Kiel tapar leik á tímabilinu. Það er rúmur mánuður í að liðið mæti næst einu af efstu liðum deildarinnar en þá koma Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Füchse Berlin í heimsókn. Berlínarrefirnir eru nú í öðru sæti deildarinnar.

Löwen er nú þremur stigum frá þriðja sæti deildarinnar sem er það síðasta sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Það er því hörð barátta fram undan fyrir Guðmund og félaga ef liðið ætlar sér að komast í keppni þeirra bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×