Handbolti

Faðirinn fæddur í Nígeríu og Atli því ólöglegur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Atli mun ekki spila fyrir Breta á ÓL í sumar.
Atli mun ekki spila fyrir Breta á ÓL í sumar. Fréttablaðið/Anton
„Þetta er alveg hreint ótrúlega svekkjandi. Ég get ekki neitað því," segir hinn tvítugi leikmaður Vals, Atli Már Báruson, Hann gerði heiðarlega tilraun til þess að komast í handboltalið Breta fyrir Ólympíuleikana í sumar.

Faðir hans Atla er Breti og þar sem Atli hefur ekki leikið landsleik fyrir Ísland ætlaði hann að nýta sér þjóðerni föður síns til þess að komast í landsliðið fyrir ÓL.

„Þetta var meira vesenið. Það kom nefnilega upp á dögunum að faðir minn er fæddur í Nígeríu. Mamma og pabbi voru þess utan aldrei gift þannig að ég er ekki löglegur. Ég á því ekki rétt á að fá ríkisfang sem stendur. Pabbi er mjög fúll yfir þessu enda smáatriði hvar hann er fæddur. Hann er Breti og öll hans fjölskylda fædd þar," segir Atli en hann hefði getað barist fyrir málinu en það hefði alltaf tekið of langan tíma og hann misst af leikunum.

Þessi staða kom óvænt upp í síðasta mánuði en þá ætlaði Atli að koma til móts við landsliðið. Hefði hann staðið sig vel með liðinu þá hefði hann átt góðan möguleika á að komast til London í sumar.

„Ég hélt að ég væri að fara að taka þátt í æfingabúðum en þá ætluðu þeir að nota mig í undankeppni HM gegn Austurríki. Þar sem það kom upp að ég væri líklega ekki löglegur datt það upp fyrir," segir Atli en hann lítur þó á björtu hliðarnar. „England er úti hjá mér en nú er spurning um að athuga hvort þeir spili handbolta í Nígeríu."

Þó svo að ekkert verði af því að Atli taki þátt í leikunum hefur þetta mál leitt ýmislegt jákvætt af sér. Áður en ferlið fór í gang hafði Atli aldrei hitt föður sinn en það mun líklega breytast núna.

„Við ætlum að reyna að hittast í sumar. Ég veit líka núna að ég á litla systur úti sem er skemmtilegt. Þetta er því ekki alslæmt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×