"Auðlegðin er ekki smá…“ Guðmundur Andri Thorsson og skrifa 5. mars 2012 07:00 Löngunin til að breyta líkama sínum er að minnsta kosti jafn gömul mannkyninu: að toga og teygja varirnar, lengja eyrnasneplana, lita kringum augun, farða kinnar, mála varir, krulla slétt hár en slétta liðað, lýsa dökkt og dekkja ljóst: þetta er fallegur mennskur eiginleiki og einkennilegur. Hann snýst ekki beinlínis um fegrun. Hann snýst ekki um að laga það sem aflaga hefur farið; þetta er ekki lýta-aðgerð. Frekar hitt: manneskjan vill skapa sig, ná sér. Ná sér frá þeim sem skapaði þennan líkama, þetta hylki, sýna og nýta frjálsan vilja sinn með því að setja mark sitt á líkama sinn: sálin vill ná líkamanum; þetta er mín hugmynd af mér. Líkamstjáning hefur sem sagt fylgt mannkyninu frá örófi alda, líkamsbreyting. Og það er auðvelt að skilja konur sem láta freistast til að láta eiga við brjóst sín, svona þannig lagað, jafnvel þótt ekkert sé að þeim. Því fylgir kannski einhver einkennileg frelsiskennd þeirrar sem mótar sig sjálf eða telur sig gera það – jafnvel þótt það sé til að vera eins og allar hinar. Sjálfur er ég íhaldsmaður í brjóstaspursmálinu. Ég verð að játa að mér hrýs hálfpartinn hugur við því að í stað þess að við höfum hundrað þúsund undursamlega ólík brjóst eftir Móður Náttúru þá fáum við hundrað þúsund brjóst eftir Ottó Guðjónsson og Jens Kristjánsson – og öll eins. Sjálfur held ég að þetta sé allt óaðskiljanlegt, það hvernig brjóstin á manneskju séu tengist tánum, hárinu, höndunum, lófalínunum, eyrunum, augunum, sálinni – öllu. Sumar konur lenda að vísu í því að líkamsvöxturinn aflagast, brjóst verða of stór með tilheyrandi óþægindum – eða of lítil – fyrir svo utan þær konur sem missa brjóst vegna veikinda. Það kann að vera góður valkostur í slíkum tilvikum að geta leitað til manna sem sérhæfa sig í minnkun og stækkun brjósta. En slík tilvik skýra varla þann mikla fjölda sem fréttum samkvæmt virðist hafa látið setja í sig pip-púða, svo að engu er líkara en að um nokkurs konar tískufaraldur hafi verið að ræða. Manni er sagt að þetta snúist um sjálfstraust, lélegt sjálfsmat, þrýsting karla í kringum konurnar sem heimta samræmt útlit af því að þeir þekkja ekki konur nema sértilsniðnar í kynóraskyni. Þetta er hættulegt. Þetta er ekki bara eins og að mála sig kringum augun eða klæða sig einhvern veginn til að draga fram tiltekinn líkamsvöxt. Ég er ekki vel að mér í sjálfstyrkingarfræðum en ég ímynda mér að góð sjálfsmynd snúist ekki síst um heildarmyndina sem manneskja hefur af sjálfri sér. Að skynja sig sem einingu alls þess sem maður er gerður úr. Sérhver manneskja er samansett úr ótal þáttum sem mynda þá heild sem er maður sjálfur – sem er „Ég". Hlutverk okkar á jörðinni er að kynnast þessari heild, læra á hana, láta allt sitt leika saman, láta sína einingu njóta sín sem best í viðsjálum heimi. Frá heila og niður í tær, frá hjarta og út í hverja frumu erum við einstakt eintak í öllum heiminum, aðeins þetta eina til. Eins og Karl Kristjánsson orti: „Auðlegðin er ekki smá / og ekki er smiðurinn gleyminn / sem lætur sérstakt andlit á / alla er koma í heiminn." Það er á einskis annars færi að varðveita og þroska þetta eintak eins vel og hugsast getur. Manneskja sem lærir að virða og rækta sérhvern part af sjálfri sér og skynja sem hluta af þeirri heild sem kallast „Ég" hefur fundið að minnsta kosti einn lykilinn að góðu lífi, þó að reyndar þurfi ytri aðstæður líka að vera hagstæðar. Það er hættulegt að taka einn part út úr þessari heild og láta sníða hann eftir móti sem samfélagið hefur búið til af einhverri frummynd sem hvergi er til nema í kynóralandinu: það er eins og að láta fótósjoppa sig til eilífðar. Þá nær maður ekki sér heldur fer maður fjær sér. Maður er firrtur. Jens Kjartansson og Ottó Guðjónsson eru örugglega mjög handlagnir en ég held samt – með fullri virðingu – að þeir hafi ekkert að gera í „smiðinn" sem ekki er gleyminn. Ég veit þetta er hálfgert raus. Hitt er raunverulegt: kona sem lætur setja sílíkon í brjóstin á sér lætur þar með setja aðskotaefni inn í líkamann, gerviefni, og ekki bara inn í hvaða líkamspart sem er, heldur þann part sem á að næra nýtt líf, þann part sem einmitt á að vera hreinn og ósnortinn af öllu heimsins plasti; þann part sem næstur er náttúrunni og jörðinni og á að vera uppspretta heilbrigðrar sjálfsmyndar. Hvað köllum við þá menn sem troða gerviefni inn í fullfrískar konur með þeim afleiðingum að þær verða veikar? Ég veit það ekki – en varla lækna. Orðið „lýtalæknir" er ankannalegt um starfsemi þeirra manna sem troða sílíkoni í ósköp venjuleg brjóst og bótoxi í ósköp venjulegar varir og eyða úr andlitum ummerkjum áranna, sjálfri sögu einstaklingsins, svokölluðum hrukkum sem þeir telja fólki trú um að séu til lýta, rétt eins og árin okkar séu eitthvað til að skammast sín fyrir; slíkir menn eru hvorki að fást við raunveruleg „lýti" né eru þeir að „lækna" – nema síður sé, eins og dæmin sanna. Þessir útlitstæknar virðast heldur ekki líta á sig sem lækna. Þeir virðast ekki líta svo á að þeir þurfi að lúta lögsögu landlæknis, nú þegar hann er að reyna að greiða úr þeim flækjum sem orðið hafa til vegna þeirrar iðju þeirra að setja leka pip-púða inn í brjóst kvenna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Halldór 16.11.2024 Halldór Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Dagur íslenskrar tungu 2024: Væntumþykja í 60 ár Eva María Jónsdóttir Skoðun Íslensku menntaverðlaunin og vandi íslenska skólakerfisins Meyvant Þórólfsson Skoðun Á að vera landbúnaður á Íslandi? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Leyfum ungmennum að sofa – hættum að sofa á verðinum Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun
Löngunin til að breyta líkama sínum er að minnsta kosti jafn gömul mannkyninu: að toga og teygja varirnar, lengja eyrnasneplana, lita kringum augun, farða kinnar, mála varir, krulla slétt hár en slétta liðað, lýsa dökkt og dekkja ljóst: þetta er fallegur mennskur eiginleiki og einkennilegur. Hann snýst ekki beinlínis um fegrun. Hann snýst ekki um að laga það sem aflaga hefur farið; þetta er ekki lýta-aðgerð. Frekar hitt: manneskjan vill skapa sig, ná sér. Ná sér frá þeim sem skapaði þennan líkama, þetta hylki, sýna og nýta frjálsan vilja sinn með því að setja mark sitt á líkama sinn: sálin vill ná líkamanum; þetta er mín hugmynd af mér. Líkamstjáning hefur sem sagt fylgt mannkyninu frá örófi alda, líkamsbreyting. Og það er auðvelt að skilja konur sem láta freistast til að láta eiga við brjóst sín, svona þannig lagað, jafnvel þótt ekkert sé að þeim. Því fylgir kannski einhver einkennileg frelsiskennd þeirrar sem mótar sig sjálf eða telur sig gera það – jafnvel þótt það sé til að vera eins og allar hinar. Sjálfur er ég íhaldsmaður í brjóstaspursmálinu. Ég verð að játa að mér hrýs hálfpartinn hugur við því að í stað þess að við höfum hundrað þúsund undursamlega ólík brjóst eftir Móður Náttúru þá fáum við hundrað þúsund brjóst eftir Ottó Guðjónsson og Jens Kristjánsson – og öll eins. Sjálfur held ég að þetta sé allt óaðskiljanlegt, það hvernig brjóstin á manneskju séu tengist tánum, hárinu, höndunum, lófalínunum, eyrunum, augunum, sálinni – öllu. Sumar konur lenda að vísu í því að líkamsvöxturinn aflagast, brjóst verða of stór með tilheyrandi óþægindum – eða of lítil – fyrir svo utan þær konur sem missa brjóst vegna veikinda. Það kann að vera góður valkostur í slíkum tilvikum að geta leitað til manna sem sérhæfa sig í minnkun og stækkun brjósta. En slík tilvik skýra varla þann mikla fjölda sem fréttum samkvæmt virðist hafa látið setja í sig pip-púða, svo að engu er líkara en að um nokkurs konar tískufaraldur hafi verið að ræða. Manni er sagt að þetta snúist um sjálfstraust, lélegt sjálfsmat, þrýsting karla í kringum konurnar sem heimta samræmt útlit af því að þeir þekkja ekki konur nema sértilsniðnar í kynóraskyni. Þetta er hættulegt. Þetta er ekki bara eins og að mála sig kringum augun eða klæða sig einhvern veginn til að draga fram tiltekinn líkamsvöxt. Ég er ekki vel að mér í sjálfstyrkingarfræðum en ég ímynda mér að góð sjálfsmynd snúist ekki síst um heildarmyndina sem manneskja hefur af sjálfri sér. Að skynja sig sem einingu alls þess sem maður er gerður úr. Sérhver manneskja er samansett úr ótal þáttum sem mynda þá heild sem er maður sjálfur – sem er „Ég". Hlutverk okkar á jörðinni er að kynnast þessari heild, læra á hana, láta allt sitt leika saman, láta sína einingu njóta sín sem best í viðsjálum heimi. Frá heila og niður í tær, frá hjarta og út í hverja frumu erum við einstakt eintak í öllum heiminum, aðeins þetta eina til. Eins og Karl Kristjánsson orti: „Auðlegðin er ekki smá / og ekki er smiðurinn gleyminn / sem lætur sérstakt andlit á / alla er koma í heiminn." Það er á einskis annars færi að varðveita og þroska þetta eintak eins vel og hugsast getur. Manneskja sem lærir að virða og rækta sérhvern part af sjálfri sér og skynja sem hluta af þeirri heild sem kallast „Ég" hefur fundið að minnsta kosti einn lykilinn að góðu lífi, þó að reyndar þurfi ytri aðstæður líka að vera hagstæðar. Það er hættulegt að taka einn part út úr þessari heild og láta sníða hann eftir móti sem samfélagið hefur búið til af einhverri frummynd sem hvergi er til nema í kynóralandinu: það er eins og að láta fótósjoppa sig til eilífðar. Þá nær maður ekki sér heldur fer maður fjær sér. Maður er firrtur. Jens Kjartansson og Ottó Guðjónsson eru örugglega mjög handlagnir en ég held samt – með fullri virðingu – að þeir hafi ekkert að gera í „smiðinn" sem ekki er gleyminn. Ég veit þetta er hálfgert raus. Hitt er raunverulegt: kona sem lætur setja sílíkon í brjóstin á sér lætur þar með setja aðskotaefni inn í líkamann, gerviefni, og ekki bara inn í hvaða líkamspart sem er, heldur þann part sem á að næra nýtt líf, þann part sem einmitt á að vera hreinn og ósnortinn af öllu heimsins plasti; þann part sem næstur er náttúrunni og jörðinni og á að vera uppspretta heilbrigðrar sjálfsmyndar. Hvað köllum við þá menn sem troða gerviefni inn í fullfrískar konur með þeim afleiðingum að þær verða veikar? Ég veit það ekki – en varla lækna. Orðið „lýtalæknir" er ankannalegt um starfsemi þeirra manna sem troða sílíkoni í ósköp venjuleg brjóst og bótoxi í ósköp venjulegar varir og eyða úr andlitum ummerkjum áranna, sjálfri sögu einstaklingsins, svokölluðum hrukkum sem þeir telja fólki trú um að séu til lýta, rétt eins og árin okkar séu eitthvað til að skammast sín fyrir; slíkir menn eru hvorki að fást við raunveruleg „lýti" né eru þeir að „lækna" – nema síður sé, eins og dæmin sanna. Þessir útlitstæknar virðast heldur ekki líta á sig sem lækna. Þeir virðast ekki líta svo á að þeir þurfi að lúta lögsögu landlæknis, nú þegar hann er að reyna að greiða úr þeim flækjum sem orðið hafa til vegna þeirrar iðju þeirra að setja leka pip-púða inn í brjóst kvenna.
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun