Lífið

Málar á bakarí og verkstæði

Hallfríður Þóra Tryggvadóttir skrifar
Handmálaðar veggskreytingar
Handmálaðar veggskreytingar
„Okkur finnst prentaðir vínyldúkar ljótir og viljum hafa karakter í lógóum. Við handmálum því auglýsingar og skilti fyrir fólk,“ segir Björn Loki Björnsson, nemi í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands, sem ásamt hópi ungra listamanna hefur ferðast um landið undanfarinn mánuð og málað vegglistaverk fyrir ýmsa aðila.

Þjóðhátíðargestir hafa eflaust séð gamaldags auglýsingu á Vilberg-bakarí í Vestmannaeyjum en hópurinn málaði hana á föstudaginn.

„Við ætlum að reyna að stofna Skiltamálun Viðars ehf. á næsta ári," segir hann spenntur. Sami hópur málaði mynd eftir grafíska hönnuðinn Sigga Eggerts utan á Hönnunarmiðstöð Íslands í vor, aðra mynd á Óðinstorgi og málaði nokkra bíla nýju bílaleigunnar Kúkúcampers.

Björn Loki hefur ásamt fimm til átta drengja hópi ferðast um landið og handmálað skilti og auglýsingar fyrir ýmsa aðila. Skreytingin að ofan prýðir nú vegg stúdíós á Stöðvarfirði.
Ferðalagið hefur gengið vonum framar og hafa þeir fengið fjölda fyrirspurna. 

„Við byrjuðum á Eistnaflugi í Neskaupstað þar sem við máluðum merki og myndir af bakarísmat fyrir kaffihúsið Nesbæ. Þaðan fórum við á Lunga á Seyðisfirði og gerðum stórt vegglistaverk á Herðubreið, félagsheimilið þar," segir hann.

Hópurinn málaði fyrir Sláturhúsið, menningarsetur Egilsstaða, og stórt lógó og veggskreytingu á 3600 fermetra stúdíó á Stöðvarfirði, sem áður var frystihús, meðal annarra verkefna. „Við erum hugsanlega að fara að skreyta hótel á Ólafsfirði með handmáluðum auglýsingum á næstunni," segir hann en á næstu dögum fara þeir norður til Akureyrar og gera vegglistaverk fyrir bílaverkstæðið Ásco.

En hvað er skemmtilegast? 

„Þegar maður fær frjálsar hendur og getur gert það sem mann langar en fengið borgaðan efniskostnað," segir hann og bætir við að ferðalagið sé allt fest á filmu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×