Handbolti

Kári fer frá Wetzlar í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Kristján í leik með Wetzlar í haust.
Kári Kristján í leik með Wetzlar í haust. Nordic Photos / Getty Images
Þýska úrvalsdeildarfélagið Wetzlar hefur nú staðfest að línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson fari frá félaginu að tímabilinu loknu.

„Kári er mikill íþróttamaður og atvinnumaður fram í fingurgóma," sagði Björn Seipp, framkvæmdarstjóri Wetzlar. „Ég er ekki í vafa um að hann muni gefa allt sitt fyrir félagið til loka tímabilins."

Fyrr í mánuðinum greindi Morgunblaðið frá því að danska liðið Bjerringbro/Silkeborg væri með Kára Kristján í sigtinu en samningur hans við Wetzlar rennur út í sumar.

Wetzlar staðfesti í dag að línumaðurinn Sebastian Weber komi aftur til félagsins í sumar en hann er uppalinn hjá Wetzlar. Hann fór frá liðinu árið 2010 og hefur spilað með Hüttenberg síðan þá.

Wetzlar byrjaði frábærlega í þýsku úrvalsdeildinni í haust en gaf svo eftir. Liðið er í níunda sæti þýsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×