Golf

Tiger fagnaði sigri á Torrey Pines

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Tiger Woods vann sitt 75. PGA-mót á ferlinum í gærkvöldi er hann fagnaði sigri á Farrmers Insurance-mótinu á Torrey Pines-vellinum.

Hætta varð leik á sunnudag þegar að Tiger og félagar áttu eftir að spila ellefu síðustu holurnar á lokahringinum.

Hann hafði sex högga forystu þegar keppni hófst í gær og náði að halda forystunni allt til loka. Hann endaði á fjórtán höggum undir pari og með fjögurra högga forystu á næsta mann, Brandt Snedeker.

Tiger náði þó ekki að spila sitt besta golf í gær. Hann var um tíma með átta högga forystu en missti fjögur högg á síðustu þremur holunum.

„Þetta var svolítið ljótt undir lokin. Ég náði ekki að halda einbeitingunni," sagði hann.

Aðeins Sam Snead, sem lést árið 2002, hefur unnið fleiri PGA-mót á ferlinum eða 82 talsins. Jack Nicklaus er í þriðja sæti á listanum með 73 sigra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×