
Ég var að selja lokkana í hátískubúð í Los Angeles sem sér hæfir sig í einstökum klæðnaði og skarti eða svokölluðum statement pieces. Stílistar fræga fólksins sækja mikið í búðina til að finna hluti fyrir t.d. tónlistarmyndbönd og myndatökur. Stílisti Stevens keypti lokk sem hitti greinilega beint í mark, en hann hefur sést með þrjá mismunandi lokka frá mér, m.a. í American Idon og þessari auglýsingu fyrir Burger King. Lokkarnir eru enn í sölu úti og stílistar Rihönnu, Keishu og Kate Hudson hafa einnig keypt þá svo það er óhætt að segja að þetta gangi mjög vel.

Ég hef alltaf haft rosalega mikinn áhuga á náttúrulegum efnum. Ég hef verið að hanna mín eigin efni úr leðri, hrosshárum og fjöðrum til að sauma úr en fjaðrirnar náðu mér alveg. Ég er búin að vera að gera lokkana í langan tíma, þeir eru í stöðugri þróun og alltaf að breytast. Ég held líka að fólk átti sig ekki á því hvað það tekur langan tíma að gera eitt stykki, ég geri allt í höndunum. Allar fjaðrirnar er unnar frá grunni, þær eru plokkaðar, sléttaðar, pressaðar, litaðar og þeim raðað saman. Hver einasta fjöður þarf að vera algjörlega fullkomin.

Fjaðralokkarnir eru nýkomnir í sölu í Kronkron á Vatnsstíg svo ég er bara að hanna og framleiða á fullu. Ég var að enda við að gera lookbook fyrir heimasíðuna mína, www.rannadesign.com sem mun opna á næstu vikum. Svo langar mig mikið að fara að hanna föt aftur og vera með sýningu næsta haust, en ég hef ekki haft tíma til þess vegna eftirspurnar eftir lokkunum og plássleysis. Annars heillar búningahönnun mig líka mikið. Ég gæti vel hugsað mér að fara í slíkt nám og vinna í þeim geira, ég held að það myndi henta mínum stíl mjög vel.
