Fótbolti

Real Madrid fær ekki að færa Barcelona-leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Það verða aðeins þrír dagar á milli stórleikja hjá Real Madrid í byrjun marsmánaðar því forráðamönnum Madridar-liðsins mistókst að færa leik við Barcelona fram um einn dag.

Real Madrid fær Barcelona í heimsókn í spænsku deildinni laugardaginn 2. mars en var að vonast til að færa leikinn fram á föstudagskvöldið. Liðið flýgur síðan til Manchester þar sem liðið mætir Manchester United á Old Trafford þriðjudaginn 5. mars.

Það kemur reyndar ekki mikið á óvart að Real-mönnum hafi ekki takist að færa til leikinn við Barca sem fer fram klukkan 16.00 að staðartíma. Leikurinn er sendur út beint til fjölda landa og því stórmál að gera slíka breytingu.

Það er reyndar nóg af stórleikjum hjá lærisveinum Jose Mourinho á næstunni þótt að liðið sé fyrir löngu búið að missa af spænska meistaratitlinum.

Real Madrid tekur á móti Manchester United á morgun í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en 26. febrúar næstkomandi heimsækir Real síðan Barcaelona í seinni leik liðanna í undanúrslitum spænska bikarsins. Fyrri leikurinn í Madrid endaði 1-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×