Handbolti

Óvíst hvort Kári nái fyrri leiknum gegn Slóveníu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson.
Kári Kristján Kristjánsson. Mynd/Vilhelm
Útlit er fyrir að enginn þeirra þriggja línumanna sem hafa spilað hvað mest með íslenska landsliðinu á undanförnum árum verði með í leiknum gegn Slóveníu ytra þann 3. apríl næstkomandi. Ísland mætir svo Slóveníu aftur fjórum dögum síðar og þá í Laugardalshöllinni en þetta eru leikir í undankeppni EM 2014.

Vignir Svavarsson er með slitið krossband og var því ekki valinn í landsliðshóp Arons Kristjánssonar sem var tilkynntur í dag.

Róbert Gunnarsson er enn að glíma við meiðsli sem hann varð fyrir á HM á Spáni í janúar og ljóst að hann mun missa af fyrri leiknum gegn Slóveníu.

Þá er óvíst um þátttöku Kára Kristjáns Kristjánssonar sem fór í aðgerð fyrr á þessu ári þar sem góðkynja æxli var fjarlægt úr baki hans. Aron Kristjánsson valdi hann í landsliðshópinn en sagði enn óvíst hvort hann nái fyrri leiknum.

„Það verður bara að koma í ljós hvernig staðan verður þegar hann kemur til landsins," sagði Aron í samtali við Vísi í dag.

Það eru því talsverðar líkur á að þeir Jón Þorbjörn Jóhannsson og Atli Ævar Ingólfsson verði einu línumenn Íslands í leiknum í Slóveníu.

„Við fáum aðeins tvær alvöru æfingar fyrir þennan leik og þetta er erfið staða sem við erum komnir í," segir Aron. „Þetta er erfiður leikur á sterkum útivelli. En það er ekkert annað í stöðunni en að gera sitt besta. Það eru engir aðrir kostir í boði."

Róbert byrjar í sprautumeðferð vegna sinna meiðsla á föstudaginn og á möguleika á að ná seinni leiknum gegn Slóveníu.


Tengdar fréttir

Alexander enn í miklu basli með öxlina

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari segir að það hafi verið talsvert púsluspil að velja íslenska landsliðshópinn fyrir tvo mikilvæga leiki gegn Slóveníu í undankeppni EM 2014.

Erfiðasta ákvörðunin að skilja Arnór eftir

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari valdi ekki Arnór Gunnarsson, leikmann þýska B-deildarliðsins Bergischer, í landsliðið sem mætir Slóveníu í undankeppni EM 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×