Handbolti

Elvar og félagar komnir í sumarfrí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Friðriksson
Elvar Friðriksson Mynd/Valli
Elvar Friðriksson og félagar í Hammarby eru úr leik í sænsku úrslitakeppninni í handbolta eftir 30-31 tap á móti Lugi HF í átta liða úrslitum. Lugi HF vann einvígið þar með 3-0. Kristianstad, liðs Ólafs Guðmundssonar, þarf að vinna tvo næstu leiki til þess að komast í undanúrslitin.

Elvar Frirðiksson skoraði fjögur mörk í leiknum en Hammarby-liðið var fimm mörkum yfir í hálfleik, 19-14. Lugi var sterkara í seinni hálfleiknum og tryggði sér sæti í undanúrslitunum.

Elvar jafnaði metin í 29-29 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en Lugi skoraði næstu tvö mörk þar af það síðara þegar tíu sekúndur voru eftir. Hammarby skoraði lokamarkið en það var ekki nóg.

Elvar skoraði alls sextán mörk í þremur leikjum einvígisins, en hann var með fjögur mörk í 23-25 tapi í fyrsta leik og 8 mörk í 25-33 tapi á heimavelli í leik tvö.

Ólafur Guðmundsson og félagar í Kristianstad eru lentir 1-2 undir á móti Alingsås eftir 21-24 tap á heimavelli í dag. Ólafur skoraði eitt mark í leiknum en Alingsås er nú búið að vinna tvo leiki í röð og getur tryggt sér sæti í undanúrslitunum með sigri á heimavelli í næsta leik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×