Handbolti

Aron: Sigurhugsun í þessu liði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands, var vitanlega ánægður með sigurinn gegn Slóveníu í dag en með honum tryggði Ísland sér farseðilinn á EM í Danmörku á næsta ári.

„Ég vissi að þetta yrði mjög erfiður leikur, enda Slóvenar komnir út í horn. Ég er ekki síst ánægður með sigurinn af þeim ástæðum," sagði Aron við Vísi eftir leikinn í dag.

Slóvenar voru með frumkvæðið framan af og Ísland komst fyrst í forystu á 50. mínútu leiksins. „Þeir voru án Uros Zorman í dag sem er mikilvægur leikmaður í þeirra liði. Nenad Bilbija kom inn í staðinn og hann átti stórleik. Þeir breyttu aðeins sínum leik í dag og voru með nýja taktík sem við vorum ekki alveg undirbúnir fyrir."

„En við sýndum gríðarlega sterkan karakter í dag og það er mikil sigurhugsun í liðinu. Sóknarleikurinn var virkilega góður og við vorum oft sterkir í hraðaupphlaupunum líka," segir Aron.

„Þetta var svolítill eltingarleikur hjá okkur í fyrri hálfleik en við náðum að laga skiptingarnar í þeim síðari. Þegar við komumst svo yfir varð þetta okkar leikur og það var svo mjög sterkt að hafa náð að keyra þetta heim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×